<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, nóvember 25, 2008

Að hugsa í lausnum 

Ég er búinn að velta hlutunum fyrir mér. Í náminu mínu á ég að ígrunda, hugsa um hlutina frá fleiri sjónarhornum heldur en mínu eigin til þess að geta orðið betri í því sem ég er að gera. Ígrundunin er samt eitthvað sem krefst æfingar. Ég get ekki hoppað úr líkama mínum og inn í hina og þessa til þess að fá fleiri sjónarhorn heldur verð ég að þjálfa sjálfan mig í að hugsa út frá þörfum mismunandi einstaklinga. Þá þarf ég að byrja á því að skilgreina sjálfan mig. Hver er ég og hvaða hlutverkum gegni ég?


Ég hef velt þessu mikið fyrir mér vegna þess að nú eru háværar raddir sem krefjast breytinga. Breytinga í Seðlabankanum, breytinga á Alþingi, breytinga á kjörum okkar og þar fram eftir götunum en hvað get ég gert? Jú, ég get mótmælt, ég get gefið mig á vald reiði minnar og óvissunnar, ég get útilokað mig frá fréttaflutningi eða ég get hætt að stressa mig á þessu ástandi af því að eitt er víst í íslensku samfélagi og hugum okkar, að þetta reddast fyrir rest. En ég vil gera meira, ég vil að rödd mín heyrist og ég vil virkilega leggja eitthvað fram sem nýtist einhverjum svo ég festist ekki í hugsunum mínum sem virka mjög einstrengingslegar núna. Ég vil breyta mínum hugsunarhætti fyrst að ráðherrar og þingmenn virðast ekki alveg heyra í mótmælum mínum né taka mark á reiði minni og svala óvissu minni.

Ég er því með nokkrar tillögur sem mig langar til þess að heyrist. Ekki vegna þess að þetta eru fullkomnar hugmyndir, langt í frá, heldur vegna þess að þetta er málefnaleg tilraun mín til þess að koma á breytingum í hugum okkar og hjörtum.


Í fyrsta lagi verðum við að horfa til þjóðarinnar. Við erum hörkudugleg þjóð sem hefur ótrúlega hátt hlutfall menntaðs fólks. Ég veit fyrir mína parta að þó svo að ég sé að verða sprenglærður þá finnst mér gott að grípa í hamar eða borvél af og til, til þess að minna mig á gildi þess að taka til hendinni, óhreinka hendurnar eða vinna ‘almennilega vinnu’ til tilbreytingar. Áður fyrr voru heilu húsin steypt með hörkuduglegu vinnuafli sem hrærði steypur í hjólbörum og báru langar leiðir, forverar okkar unnu myrkranna á milli til þess að brauðfæða fjölskyldur sínar án þess að kvarta. Tímarnir eru vissulega breyttir en ekki það breyttir að við höfum ekki gott af því að vinna líkamlega vinnu af og til. Það er akkúrat það sem við þurfum að gera núna. Amma mín sagði við mig um daginn að hún hefði farið í sína fyrstu utanlandsferð þegar hún var fertug en ég hef ferðast álíka mikið erlendis og hún á allri hennar ævi, fyrir þrítugt. Og nú þegar blasir við mikið atvinnuleysi verðum við að bregðast við til þess að halda þessu fólki hérna heima. Fyrst að stjórnvöld ætla einungis að bjóða okkur upp á að færa skuldadagana þá verðum við að koma með einhverjar hugmyndir sem eru betri en þeirra. Þó svo að þingmenn og ráðherrar séu 63 þá eru einungis 5 viðurkenndar hugmyndafræðistefnur í gangi inni á þingi og þau þurfa fleiri sjónarhorn.

Við verðum líka að átta okkur á því að konur hafa komið inn á þing í seinni tíð og það eru ennþá uppi umræður um að þær eigi ekkert erindi þangað. Það hefur verið tíðrætt að konur hafi lækkað laun stétta með innrás inn í karlastéttir. Við sjáum það skýrt og greinilega á kennarastéttinni. Fyrir um 100 árum síðan var kennarastéttin nær eingöngu karlastétt og launin voru þau sömu og ráðherra! En fyrir um 50 árum fóru konur að sækja í þessa stétt og launin stöðnuðu. Hvar værum við í dag ef kennarastéttin væri ennþá jafnvel launuð og þingmanna? Svo í seinni tíð hefur umræðan snúist um það að það megi ekki hækka laun kennara af því að þá rísi aðrar láglaunastéttir upp á afturlappirnar og krefjist kjarabóta!


Ég var eitt sinn í heimsókn hjá systur minni í Þýskalandi. Við sátum þrjú systkinin á kaffihúsi þegar maður á okkar aldri vindur sér að okkur. Hann spurði okkur út í þetta heillandi tungumál sem við töluðum og þegar hann var búinn að fá svar við því hvaða hrognamál þetta væri þá sagði hann við okkur fullur af öryggi að hann væri kennari. Okkur fannst það ekkert tiltökumál vegna þess að móðir okkar hefur verið farsæll kennari í rúm 20 ár. Aldrei hefur hún stært sig af því eins og þessi herramaður og það hefur aldrei þótt tilefni til. Kennarar hafa eitt mikilvægasta hlutverki að gegna í upplýstu samfélagi og það er að virkja og móta huga unga fólksins sem á eftir að stýra landinu. Þannig að við verðum að virkja það mannafl sem við höfum hérna og fyrsta hugmyndin snýr að kennurum og verkafólki landsins:


Ég legg til að við bjóðum verkafólki, í stað þess að vera atvinnulaus, að hjálpa til í skólum landsins. Iðnmenntað fólk getur aðstoðað í iðnnámi í framhaldsskólum og alls kyns verkefnum í skólunum. Þegar ég var í grunnskóla fengum við stærðfræðiverkefni þar sem við áttum að hanna leikvöll á ákveðnum fleti í heimabæ mínum og það hefði verið frábært að fá betri innsýn í verkefnið með aðstoð smiða, arkitekta og annarra sem gætu hugsanlega útskýrt fyrir okkur hvað felst í að koma fram með hugmynd, kostnaðaráætlun og þar fram eftir götunum. Þannig er hægt að nýta krafta verkafólks með því að aðstoða í kennslu til þess að koma ennþá betur til móts við nemendur auk þess að hægt er að aðstoða og hugsanlega útskýra suma hluti betur fyrir fleiri nemum.

Einnig væri hægt að nýta krafta sérmenntaðs fólks til þess að aðstoða nemendur og kennara í grunn- og framhaldsskólum í einstaka greinum eins og stærðfræði, efnafræði, eðlisfræði og íslensku. Stjórnmálafræðingar, sagnfræðingar og félagsfræðingar geta hjálpað til við íslandssögu, samfélagsfræði og lífsleikni til þess að hjálpa nemendum að skilja hvað er í gangi í samfélaginu. Einnig dettur mér í hug að hollt væri að kennarar í þessum greinum láti nemendur gera verkefni um ástandið. Komast að því hvernig ömmur og afar upplifðu fyrri efnahagsþrengingar og svo framvegis. Það getur einnig orðið umræðuhvetjandi inni á heimilum landsins og þjappi fjölskyldunum betur saman með því að eyða tíma saman og ræða upplifun og tilfinningar hvers og eins. Við þörfnumst þess og börnin okkar þarfnast þess.


Þetta gæti verið ákveðinn liður í því að stjórnvöld viðurkenni hluta af mistökum sínum sem voru að láta rekstur skólanna til bæjarfélaganna. Ávinningurinn væri fjölþættur og bæjarfélögum væri gert kleyft að auka tímabundið launakostnað sem færi annars hvort eð er í atvinnuleysisbætur en nýttust hins vegar betur fyrir fleiri einstaklinga samfélagsins. Þar að auki virðist karlmönnum eðlislægt, ef marka má þær upplýsingar sem við höfum fengið og ekki fengið frá ráðamönnum þjóðarinnar, að kenna. Að vísu er þar átt við að kenna öðrum um en að kenna engu að síður.


Nú er tími kvenna kominn í stjórnmálum. Karlarnir hafa algjörlega misst boltann og það er rökrétt að þeir víki. Við höfum fullt af færum konum í samfélaginu sem eru tilbúnar til þess að taka við og það er hlutverk okkar karlanna að styðja við bakið á þeim núna og í því eins og þær hafa stutt við bakið á körlunum í gegnum tíðina. Ég lít á það sem skyldu mína að tala fyrir þeirra hönd eins og þær hafa átt stóran þátt í því að gera mér kleyft að vera viðstaddan fæðingu sona minna, geta verið heima með þeim fyrstu mánuðina (fékk reyndar aðeins 2 vikur í fæðingarorlof þegar eldri sonur minn fæddist ’99) og leyft mér að mynda við þá geðtengsl án þess að vera litinn hornauga. Þær hafa barist ötullega fyrir þessum réttindum mínum án þess að hafa krafist nokkurs í staðinn og þær bera hagsmuni mína, barna minna og konu minnar að leiðarljósi. Þannig að þó svo það sé ekki nema bara í ljósi þess að karlar hafa klúðrað hlutunum eigum við að gefa þeim tækifæri. Þær eru tilbúnar.


Þriðja atriðið snýr að fæðingarorlofinu. Nú er lag að lengja það um þrjá mánuði. Það leysir ákveðinn vanda án mikillar fyrirhafnar. Staðreyndin er sú að það er hagur barnsins að foreldrar nái bæði að mynda sem sterkust tengsl auk þess að það hvetur feður enn frekar til þátttöku í frumbernsku barna sinna. Þar að auki hefur það verið margsannað að brjóstamjólkin sé það besta fyrir barnið og með því að lengja fæðingarorlofið er komið aukið svigrúm fyrir mæður til þess að hafa barnið lengur á brjósti og styrkja stoðkerfi barnanna sem og að með lengri brjóstagjöf verða börn bæði sjálfstæðari og sjálfsöruggari einstaklingar seinna meir sem samfélagið okkar þarf.

Við þurfum að einbeita okkur að börnunum á þessum tímum. Þau verða útundan, skilja ekki reiði, hræðslu og óöryggi foreldra sinna en með því að lengja fæðingarorlofið gerum við þau að sterkari einstaklingum þegar þau taka sín fyrstu skref í samfélaginu. Einnig léttum við undir í skólakerfinu með þátttöku fólks sem væri annars heima á bótum bæði með því að fjölga þeim sem sinna nemendum innan skólans auk þess að geta mætt þörfum nemenda á fjölbreyttari hátt.


Þetta eru einungis þrjár hugmyndir sem auðvelt væri að hrinda í framkvæmd á næstu vikum. Kennarar þyrftu einn til tvo auka daga (á fullum launum) til þess að skipuleggja aðkomu fólks úr atvinnulífinu inn í skólastofurnar sem yrði öllum til bóta.


Einnig væri mögulegt að viðskiptafræðingar og aðrir með stærðfræðilega menntun gætu boðið upp á aukna þjónustu í vor fyrir próf. Það gæti verið einhvers konar samfélagsþjónusta þar sem markmið þeirra væri að gefa af sér eitthvað til komandi kynslóða. Talnaglöggir einstaklingar sem gætu aðstoðað þá nemendur sem standa illa eða skilja illa stærðfræðina. Þar væri hægt að skapa samtök þar sem hver leggur klukkustund eða tvær af hendi rakna til góðs málstaðs.


Það er því fullt af tækifærum fyrir þá sem standa frammi fyrir atvinnuleysi, hvort heldur sem þau gefa sína vinnu að hluta á móti atvinnuleysisbótum eða að aukið fjármagn verði sett í skólakerfið í heild sinni. Þar á ríkisstjórnin að koma inn í óhikað vegna fjölþætts ávinnings fyrir samfélagsheildina. Atvinnulausir fá eitthvað að gera, börnin njóta meiri samvista við fullorðna, fólk hefur ýmis samskipti á fjölbreyttum grundvelli og þeir sem vilja og geta, geta gefið af sér á óeigingjarnan hátt til samfélagsins sem þjappar okkur saman og gerir okkur öll að sterkari heild fyrir framtíðina!


Raunhæft?

Virðingarfyllst,

Óli Örn Atlason

Uppeldis- og menntunarfræðingur og faðir


föstudagur, nóvember 07, 2008

Sinaskeiðabólga dauðans! 

Lítur nokkurn veginn svona út:

Myndin gerir þessu samt ekki nægileg skil... en þetta er langt í frá þægilegt!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?