<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, febrúar 21, 2004

Talandi um drauga fortíðar...

Sá einn draug um daginn... og sagan í kringum þennan draug fær mig alltaf til þess að brosa innan í mér... þrátt fyrir hversu snúið plottið og útkoman varð...

Spurning um að byrja á byrjuninni. Einu sinni... fyrir langa löngu... þá sleit ég samvistum við barnsmóðir mína. Þetta var búið að vera rosalega erfitt vegna ótal ástæðna; barn í spilinu, skuldbindingar, tilfinningar og svo mætti lengi telja. Þannig að þegar loksins á hólminn var komið þá varð rosalegt spennufall hjá mér. Ég hef aldrei á lífinu upplifað sjálfann mig sem jafn mikla tilfinningaveru og eimmitt þá. Ég var eins og skrúðgarður í eggi! Segi það alveg satt... ekki blóm í eggi... heldur skrúðgarður og allar plönturnar og blómin táknuðu mínar tilfinningar. Samt voru engin hefðbundin blóm né plöntur í þessum skrúðgarði, heldur var hann þéttskipaður af framandi og ókunnugum jurtum sem báru allar skæra og fallega liti. Ég hef alltaf elskað að elska og verið sjálfum mér hættulegastur í því samhengi...

Allaveganna þá gekk ég lengi um í þessum skrúðgarði og hugsaði um þessar framandi og fallegu plöntur eftir bestu getu, án þess að vita nokkuð hvernig ég ætti að hugsa um þær... því allar voru þær ólíkar og með mismunandi þarfir sem voru eins ólíkar hefðbundnum þörfum venjulegra plantna og hægt væri. En ég gekk þarna um, dáðist að þeim, lagði alúð og ást í umönnunina og þær blómstruðu sem aldrei fyrr.

Í mínu daglega lífi (raunveruleikanum) varð ég ástfanginn. Ég varð ástfanginn af hreinlega öllu sem á mínum vegi varð og innra með mér ræktaði ég skrúðgarðinn minn sem stjórnaði mínum hugsunum, gönguhraða og stefnu. Ég man eftir því að ég fór í göngutúr í alveg brjáluðu roki... en ég elskaði rokið bara og sandinn sem fauk í andlit mitt... og meira að segja greinina sem slóst í andlitið og hefði undir eðlilegum kringumstæðum meitt mig... Ég elskaði sólina, stjörnurnar, flóðið og fjöruna... allan pakkann!

Svo kom að því... ég varð ástfanginn af stúlku. Hún var í skólanum heima og ég elskaði hana og ég vissi að allt yrði bara betra! (ranghugmynd?) Allaveganna fékk ég sting í hjartað og hjarta mitt tók aukaslag í hvert skipti sem ég sá hana og ég vissi aldrei hvernig ég ætti að haga mér þegar hún væri í augsýn (þó svo að ég vissi ekkert hvort hún hefði tekið eftir mér, eða svo mikið sem litið í áttina til mín). Með skrúðgarðinn í fullum blóma vissi ég að þetta yrði eiginkona mín og ég vissi að við yrðum svo hamingjusöm það sem eftir yrði að við yrðum fyrirmyndin að ameríska endinum 'And they lived happily ever after...'. Þó svo að ég vissi ekkert um hana (ekki einu sinni nafn) þá vissi ég að hún væri góð og að hún væri fullkomin, fyrir utan að vera fullkomin fyrir mig!

Þannig að með skrúðgarðinn, vatn, plöntunæringu og græna fingur að vopni lagði ég af stað í leit að hamingju. Ég sá alltaf fyrir mér að ég væri búin að vera hangandi í sama biðskýlinu eftir að leið 10 ætti leið hjá (leiðin að hamingjunni), en þarna tók ég af skarið og fór í strætó númer 1 og ætlaði mér bara að komast að leiðarenda... þó svo að ég þyrfti að taka skiptimiða, taka annan strætó, bíða í rigningu eftir öðrum og sæta ýmsu mótlæti til þess að komast þangað. En ég ÆTLAÐI.

Fyrsta hugsunin hjá mér var sú að í þetta skipti skyldi ég gera þetta 'rétt'. Núna ætlaði ég að sleppa því að reyna að ná í hana á djamminu og í staðinn að hitta hana edrú og sem ég sjálfur og bjóða henni á deit... bjóða henni annað hvort heim í mat (hefði svo virkað!) eða ef það væri 'tú möts' að bjóða henni þá bara út að borða til að byrja með. Ég upphugsaði plan til þess að nálgast hana og hvað ég myndi segja og gekk frá öllum lausum endum og 'possible scenarios'... Vissi bara ekki hvað hún hét. Þurfti að byrja á því að redda því... Talaði við kunningja minn sem ég vissi að þekkti til hennar og lýsti henni fyrir honum og hann sagði: Já... hún A (köllum hana það). Uppfullur af rómantík, væmni og von hugsaði ég og sagði upphátt: A... Himneskt nafn! Þegar þarna var komið við sögu steig ég út úr vagni 1 beinn í baki, með bros á vör og með skiptimiða.

Næst var að komast að því hvar hún yrði þegar ég ætlaði að láta til skara skríða og kom ég mér þá í samband við manneskju sem þekkti hana og umgekkst hana. Ég var á þessum tíma búinn að verða mér út um símanúmer hennar (gsm) þökk sé símaskrá.is þannig að það átti bara eftir að finna heppilegan vígvöll fyrir yfirvofandi sigur! Ég rölti í rólegheitunum að heimavistinni þar sem að ég ætlaði að vera fyrir utan og hringja í hana og fá hana til þess að koma út að spjalla.

En fyrsta áfallið kom þá. Það eina sem ég hafði ekki gert ráð fyrir... kom fyrir... þarna byrjaði ég ósjálfrátt að trúa á Lögmál Murphy's. Þegar ég loksins hringdi í hana þá svaraði hún ekki! Ég fékk algjöran panik vegna þess að ég hafði ekki gert ráð fyrir þessu og að nú myndi hún grafa upp allar mínar persónuupplýsingar á netinu áður en mér gæfist kostur að útskýra og flytja mitt mál. Hryggbrotinn hringdi ég í vinkonu hennar og útskýrði fyrir henni stöðuna en hún hughreysti mig og vissi að hún væri ekki við þannig að ég væri ekki dauðadæmdur enn. Þar sem að ég gat ekki annað, lýsti ég í helstu atriðum fyrir henni pælingu minni í von um samþykki og það fékk ég svo sannarlega og einnig áherslu á að ég væri að gera góða hluti og að þetta væri rosalega góð stelpa. Haldiði að strætó 3 hafi ekki komið þarna... bara á undan nr. 2!!!

Ég settist inn í stofu heima og kveikti á sjónvarpinu. Ég var vel til hafður... enda var tilefnið ekki minna en að hitta mína framtíðar-spúsu! en einhverra hluta vegna tók ég ekki augun af símanum mínum. Hjartað barðist í mér ótt og títt, sjálfsöryggi mitt var mikið er ég renndi yfir það sem ég ætlaði að segja en tíminn virtist ekki vera að vinna með mér... hann hægði bara á sér og gott ef að sekúnduvísirinn stríddi mér ekki nokkrum sinnum með því að slá sömu sekúnduna nokkrum sinnum af og til.

Nú var komið að því! Annað sinn renndi ég af stað til þess að hitta mína sönnu ást. Það fyrsta sem ég sé þegar ég geng út úr húsinu mínu var svartur köttur. Ég trúði því að ég væri skotheldur í þessum leiðangri mínum þannig að ég leit á köttinn... og sá bara að ég elskaði hann líka! Svartur eða ekki... hjátrú eða ekki... ég var óstöðvandi.

Þegar ég staðnæmdist fyrir utan heimavistina og ætlaði að bíða eftir vagni 4 kom vagn 5 allt í einu að. Pizzusendill skaust inn fyrir mig þannig að ég komst inn fyrir rammgerða 'dyrasímahurð' heimavistarinnar og á vit ævintýranna. Ég staðnæmdist hjá töflu þar sem vistarbúar voru nafngreindir til þess að finna rétt númer á himnaríki. Ég fann númerið og tölti af stað á aðra hæð þar sem biðu mín gull og grænir skógar. Ég staðnæmdist fyrir utan herbergishurðina hennar og hjartað í mér ætlaði út úr mér því það sló svo hratt!

Ég andaði nokkrum sinnum rólega til þess að koma mér niður á jörðina og byggði upp innri styrk til þess að banka á hurðina. Ég hugsa að ég hafi haldið hendinni í 'bank-stellingu' uppvið hurðina í svona tvær mínútur áður en kjarkurinn og innri styrkurinn var orðinn það mikill að ég gat bankað! Bank, bank, bank. Alltof laust!!! Ég vissi að þetta þýddi ekki neitt þannig að ég ákvað að banka aftur: Bank, bank, bank! Þetta var að sjálfsögðu alltof hátt... en ég gat verið viss um að hún heyrði þetta. Ekkert... Alls ekkert... Hún var ekki inni hjá sér. Ég dró upp símann minn og hringdi í hana. Kynnti mig og spurði hvar hún væri því ég þyrfti að eiga við hana orð. Hún sagðist vera inná herbergi hjá vinkonu sinni og spurði hvað ég þyrfti að tala við hana. Ég spurði hana hvort að hún gæti ekki stigið út fyrir í smá stund. Hún ítrekaði spurninguna og ég spurði hana aftur hvort að hún kæmist ekki út til að tala við mig.

Þetta stefndi í algjört óefni hjá mér þannig að ég var farinn að örvænta svolítið þarna. Það var semsagt farið að rigna á stætóstoppistöðina þar sem var ekkert skýli. Í þriðja sinn spurði hún mig um hvað ég vildi ræða og með despereit tón tókst mér að lokka hana fram.

Ég heyrði hljóð í hurð að opnast til hliðar við mig og ég leit inn ganginn. Svo þegar hún kemur út úr herberginu þá er þetta KOLVITLAUS STELPA!!! Hjartað í mér stoppaði og ég roðnaði uppað kinnum og hugsaði næstum því upphátt: NEI! (með panikfílíng). Þegar ég hætti svo loksins að stama og slefa náði ég að koma út úr mér: Ég er að leita að vinkonu þinni... ég hef farið mannavilt... og svo byrjaði ég að lýsa henni fyrir henni. -Já... þú meinar B? Já, B! svaraði ég um hæl... og fattaði að ég vissi alltaf hvað hún hét!!!

Þarna roðnaði ég upp að enni og náði að spurja hana hvort að hún væri við. -Hvað viltu henni? spurði hún mig og í algjörum panik sagði ég: Sko mig langaði ótrúlega til þess að hitta hana og athuga hvort að hún vildi nokkuð... kannski... koma út með mér... á deit eða svoleiðis... eitthvað. Þarna skaut ég mig í fótinn og roðnaði upp fyrir haus. Ég var eins og hrætt og sært dýr sem var búið að króa af og sá mér engrar undankomu auðið þannig að ég sagði henni frá öllu og fattaði svo eftirá að ég hefði geta logið mig nett út úr þessu.

Þarna stend ég fyrir framan A eins og nýútsprungin rós í framan sem stóðu þvílíkir geislar af og hiti! Ég var svo rauður í framan að andlitið á mér rann alveg saman við rauðu skyrtuna sem ég var í! -Æji... hún er bara eiginlega með strák... og er búin að vera með honum alveg heillengi segir hún við mig. Þarna hrundu allar mínar vonir og væntingar til ánægjulegs lífs og bjartrar framtíðar, með einni setningu. Þarna stend ég eins og illa gerður hlutur, eldrauður í framan, búinn að ausa, á mjög klúðurslegan hátt, út öllum mínum vonum og væntingum í fangið á ókunnugri stelpu sem var besta vinkona hennar. Ég byrjaði að stama og slefa aftur...

Svo þegar ég er loksins að jafna mig í andlitinu og hættur staminu og slefinu segi ég við hana að þetta hafi verið einn stór misskilningur allt saman og spyr hana vinsamlegast hvort að við gætum bara haft þetta útaf fyrir okkur. Mér til mikillar undrunar tók hún vel í þann streng og ég sá það á henni að þvílík önnur eins vorkunn hafði aldrei skinið úr hennar augum. Hún vorkenndi lúsernum mér alveg geðveikt. Þannig skyldum við... ég skammaðist mín í burtu... með sárt og rautt ennið og brostna drauma.

Þegar ég kemst loksins út í ferskt loft vissi ég ekki hvort að ég ætti að hlæja eða gráta... og var mér hlátur ekki ofarlega í huga. Ég gekk út á horn þar sem ég hitti ákkúrat fyrir vinkonu hennar sem hafði bæði gefið mér samþykki og staðsetningu á henni... Ég sagði henni sólarsöguna og það var allaveganna ein manneskja sem skemmti sér konunglega yfir þessum óförum mínum þennan dag!

Ég fór heim og lagði mig bara... þurfti andlega og líkamlega hvíld og ég svaf eins og ungabarn í fósturstellingunni þessa nótt.

Daginn eftir er ég á labbi niðr'í bæ heima þegar ég sé B keyra framhjá. Ég sá að hún sá mig og ég fékk sting í hjartað og fiðrildi í magann. Ég var núna kominn með númerið hennar (símaskrá.is) og hugsaði með mér að ég væri kominn á botninn og sykki ekki dýpra en ég var kominn. Þannig að ég dró upp símann og hringdi í hana. Hjartað í mér hamaðist... og stoppaði þegar hún svaraði. Ég vissi ekkert hvað ég ætlaði að segja við hana eða neitt... þannig að ég var kominn í hálfgerða klípu. Í týpískum panik byrjaði ég á því að kynna mig... hún var engu nær... og fór þá bara að lýsa því fyrir henni hvað ég hefði gert deginum áður (BIG MISTAKE!). Ég sagði: Ég kom á vistina í gær og ætlaði að reyna að finna þig... ég talaði við hana A og hafði þá farið mannavilt og... mig langaði allaveganna til þess að bjóða þér út eða eitthvað... (svo fór ég aðeins að hugsa... hvað er ég að gera???). -Var A ekkert búin að segja þér frá þessu? spurði ég hana þegar ég fattaði að ég var búinn að koma mér í sama 'mess' og deginum áður. -Nei. sagði hún... og þá var A búin að verða við bón minni um að minnast ekkert á þetta við nokkurn mann... og ég sem hélt að ég gæti ekki sokkið dýpra... BIG MISTAKE! Gæti ég verið óheppnari?!? Allaveganna þá varð samtalið ekkert miklu lengra og ég kvaddi...

Síðan þá hef ég alltaf verið að bíða eftir því að þessu yrði slegið uppí grín (eins og ég er farinn að líta á þetta núna) en nei... Það hefur engu orði verið minnst á þetta í þessum vinahópi. Ég hitti vinkonuna sem gaf mér leiðbeiningar og samþykki u.þ.b. tveimur vikum seinna og þá hafði ekkert verið minnst á þetta. Mér hefur alltaf liðið eins og 'stalker' eftir þetta í sambandi við þessa stelpu en það er samt ekkert óþægilegt að sjá hana.

Þetta er semsagt einn af draugum fortíðarinnar og ég sá hana núna um daginn... hún lítur ennþá mjög vel út og ég er ennþá með þessa hugmynd um hana í kollinum á mér...

*stuna*

This page is powered by Blogger. Isn't yours?