<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, júní 21, 2004

Hrafn Jökulsson, barn síns tíma... 

Fréttablaðið, mánudagur 21. júní 2004, baksíða:
Bakþankar Hrafns Jökulssonar
Tvær fréttir
Tvær stórfréttir frá síðustu vikum hefðu átt að vera á forsíðum dagblaðanna, en voru það ekki. Þingið ætti að koma saman vegna þessara mála, ríkisstjórnin ætti að lýsa afstöðu sinni, forsetinn ætti að segja okkur hvað sé til ráða. Hinn þögli meirihluti ætti að storma fram á ritvöllinn, við ættum að blása til þjóðfundar og heita því að leysa þessi tvö mál, sem bæði snerta framtíð Íslands og fólksins sem hér býr.

Önnur fréttin fjallaði um niðurstöður rannsóknar á tölvuleikjafíkn unglinga. Þar kom meðal annars fram að fjórði hver 15 ára strákur á Íslandi er fjóra klukkutíma eða lengur í tölvuleikjum - á dag. Þetta er hrollvekjandi: Fjórir klukkutímar á dag jafngilda 60 sólarhringum á ári. Þúsundir íslenskra unglinga (og fullorðinna) lifa nú með annan fótinn í heimi þar sem dægrastyttingin gengur út á að stytta fólki aldur. Hin vopnlausa og friðelskandi þjóð er að ala upp heila kynslóð sem er þrautþjálfuð í manndrápum.

Einhver sagði að börn á Íslandi væru í raun meðhöndluð eins og fangarnir á Litla-Hrauni: Lokuð inni í herbergi með tölvu og sjónvarp. Pabbi og mamma sitja uppgefin í stofunni fyrir framan annað sjónvarp og reyna að gleyma yfirdrættinum, raðgreiðslunum, bílaláninu og öllum þessum timburmönnum sem þjóðin situr nú uppi með eftir geggjaðasta neyslufyllerí Íslandssögunnar.


Þessir bakþankar Hrafns særa mig ótrúlega djúpt vegna þess hvernig hann vill bregðast við þessari þróun. Með því að gera þetta að einhverju pólitísku ágreiningsmáli sem skella eigi í þjóðaratkvæðagreiðslu og láta Dabba og Óla fara að rífast aftur.
Ég væri til í að vita hvernig öðrum fíknum þessara drengja væri háttað t.d. eins og áfengisdrykkju og reykingum. Samkvæmt seinustu ESPAD-skýrslu sem ég las kom fram að reykingar og drykkja væri að dragast saman hjá unglingum, tölvu'fíknin' kemur kannski í staðin? Ég er bara nett sáttur við þá þróun. Ég reyki reyndar sjálfur og drekk einnig en af tvennu illu myndi ég frekar vilja að ungmenni Íslands eyði meiri tíma í tölvuleiki í stað áfengisdrykkju og reykinga.

Mér finnst nú einnig frekar skrýtið að Hrafn skuli segja: „Hin vopnlausa og friðlausa þjóð er að ala upp heila kynslóð sem er þrautþjálfuð í manndrápum.“ Þetta, frá manni sem er forseti Hróksins (skákfélags) því að það er sannað að skák er ein 'aggressívasta' íþrótt sem fyrir finnst og gengur EINGÖNGU út á það að drepa andstæðinginn, leggja fyrir hann gildru og leggja hann af velli! Þar skaut góður penni sig í fótinn... Þar að auki eru raunveruleg manndráp (vonandi) töluvert ólík því sem gerist í tölvuleikjum og jafnvel hollívúdd-myndunum sem við nærumst á, mörg hver...

Hvort sem að það er persónuleg reynsla Hrafns eða einhvers sem hann þekkir að „Pabbi og mamma sitja uppgefin í stofunni fyrir framan sjónvarpið...“ þá ætti hann að fara að eigin ráðum og „brölta upp úr hægindastólnum, slökkva á sjónvarpinu og athuga hvernig krakkarnir okkar hafa það. Við getum skapað þeim tilveru sem er skemmtilegri og innihaldsríkari en blóðbað tölvuleikjanna.“ Við getum líka athugað hvernig krakkarnir hafa það og athugað hverju þau eru að leika sér í... það eru ekki allir þessara drengja að leika sér í Counter-strike, sem gengur meðal annars út á samvinnu liðsfélaga og liðsheildar, samhæfingu handa og augna og 'strategíur', fyrir utan blóðsúthellingar. Svo er líka hægt að athuga hvort að þetta sé að hafa mikil áhrif á skapið í þeim og hvort að þessir drengir séu líklegri til þess að fremja morð í raunveruleikanum eða hvort þeir fái fyllingu sína í leikjunum.

Ekki tel ég líklegt að 15 ára unglingsdrengir á Íslandi skjóti á jafnaldra sína úr alvöru byssum, hvort heldur í gríni eða alvöru. Væri fullorðið fólk þá að skilja eftir skotvopn á glámbekk eða þurfum við að fara að óttast herskáa 15 ára unglinga sem geta með einhverjum leiðum reddað sér skotvopnum eins og ekkert sé eins og einhverjir hryðjuverkamenn/skæruliðar? Vegna þess að þannig er gert í einhverjum tölvuleik?!? Ætlum við börnum okkar ekki örlítið meiri gáfum en þetta? Einnig hugsa ég að fréttirnar fari verr með börnin og krakkana heldur en einhverjir tölvuleikir... „Við vörum við þeim myndum sem hér verða sýndar... þær geta vakið óhug...“

Sonur minn, sem er 5 ára, er farinn að nota tölvuna mína, meðal annars til þess að læra betur á stafina og nú nýverið til þess að leggja saman, draga frá og þess háttar. Ég hef ekki miklar áhyggjur af honum þó svo að hann sé einungis 5 ára. Tölvurnar eru framtíðin (upp að vissu marki) og vona ég frekar að hann spili tölvuleiki 4 tíma á dag þegar hann verður 15 ára frekar en að reykja og drekka áfengi.

Ég held að það væri nærri lagi að setja í þjóðaratkvæðagreiðslu afnotagjöldin af RÚV. Ég leyfi mér að alhæfa, eins og Hrafn gerir í sinni grein, að ef að þjóðinni stæði til boða að borga afnotagjöld af RÚV og sleppa því, þá myndu ALLIR velja síðari kostinn! Fáránlegt að almannavarnatæki skuli rukka afnotagjöld og sýna BARA lélegar kvikmyndir og geta ekki einu sinni sýnt fréttir á réttum tíma útaf fótboltaleikjum... Það verður gaman að sjá hvernig fer fyrir RÚV þegar rannsókn Evrópudómstólsins (eða hvað sem það nú var) lýkur á réttmæti rukkunar afnotagjalda.

Við skulum ekki vera að stressa okkur á því hvaða leiki börnin eru að leika sér í... sýna frekar áhuga og kynnast því sem gerist á bak við luktar dyr... og hreinlega þakka bara fyrir að þau séu inni í herbergi að leika sér í tölvunni í stað þess að vera einhversstaðar úti reykjandi eða drekkandi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?