<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, nóvember 05, 2004

Staða feðra 

Ágætu gestir.
Ég heiti Óli Örn Atlason og ætla að fjalla um stöðu feðra og reyna að svara þeirri spurningu hver staða feðra sé gagnvart börnum þeirra í íslensku samfélagi eftir skilnað.

Samfélagsleg staða feðra við skilnað eða sambúðaslit stjórnast að miklu leyti af ríkjandi viðmiðum samfélagsins. Sú hefð hefur verið ríkjandi að mæður eigi að sjá og sjái að mestu um börnin. Þar af leiðandi fá þær forsjá yfir barni við skilnað og feður fá barnið til sín aðra hverja helgi. Það að mæður fari með forsjá eftir skilnað hefur verið einskonar óskráð regla sem hefur fengið byr undir báða vængi og skapast út frá nokkurs konar þjóðsögum í kring um tapaðar forsjárdeilur. Þetta ríkjandi viðmið er smám saman að breytast með tilkomu fæðingarorlofslaganna, meiri þátttöku feðra í umönnun barna sinna og umræðunnar í samfélaginu. Það er talið aðdáunarvert að faðir skuli vera einn með barn á meðan það þykir ekkert tiltökumál að einstæð móðir hafi allt að þrjú börn á sinni könnu.
Karlar eru oft í þeirri stöðu að þeir séu fyrirvinna fjölskyldunnar. Þeir eru útivinnandi og sjá heimilinu, eins og er, fyrir meiri tekjum en mæðurnar. Ríkjandi karllægar hefðir í íslensku samfélagi gera það að verkum að feður eru þessar fyrirvinnur. Þegar barn fæðist neyðist faðirinn til þess að auka við sig vinnu til þess að brúa bilið eftir að tekjur fjölskyldunnar hafa lækkað umtalsvert. Þessum hefðum eru fæðingarorlofslögin, krafan um jafnrétti, hagsmunir barnanna og umræðan í samfélaginu að vinna gegn. Samfélagsleg staða feðra fer því batnandi með hverjum deginum sem líður þó svo að erfiðast reynist að breyta hinu almenna viðhorfi samfélagsins um hin hefðbundnu kynhlutverk.

Með tilkomu fæðingarorlofslaganna, jafnréttislaganna og endurbóta á barnalögunum hefur lagaleg staða feðra batnað til muna. Sameiginleg forsjá er ekki nema 12 ára gamalt fyrirbæri í íslenskri löggjöf og með tilkomu þess í barnalögunum árið 1992 varð foreldrum kleift að fara með sameiginlega forsjá. Þetta þýðir í raun það að foreldrar geti komist að samkomulagi um umgengni, skiptingu á útgjöldum og allt það sem snýr að barninu, án íhlutunar þriðja aðila. Þegar foreldrar barns geta komist að samkomulagi eru hagsmunum barnsins best gætt. Staðreyndin er einnig sú að foreldrar eru almennt frekar ánægðir með sameiginlega forsjá þar sem ábyrgð foreldra gangvart barninu er að mestu jöfn. Sameiginleg forsjá var valin í um 23% tilvika árið 1992 en í dag er sameiginleg forsjá valin í um 70% tilvika við skilnað eða sambúðarslit. Samt sem áður virðist hinn hefðbundni helgarpabba-pakki vera ráðandi í umgengni feðra við börn sín hvort sem um sameiginlega forsjá er að ræða eða ekki. Nú er sameiginleg forsjá orðin ríkjandi viðmið þegar kemur að skilnaði en samkvæmt lögum um lögheimili getur einstaklingur einungis haft lögheimili á einum stað. Það gerir það að verkum að forsjáin er yfirleitt í höndum móðurinnar.
Í barnalögunum og fæðingarorlofslögunum er sérstaklega kveðið á um rétt barns til þess að þekkja og umgangast báða foreldra sína til jafns. Foreldrum reynist yfirleitt erfitt að skilja og síta samvistum og þar af leiðandi lenda hagsmunir barnanna oft á hakanum. Með tilkomu þessara laga hefur þróun síðustu ára verið á þá leið að nú er meira hugað að því sem er börnunum fyrir bestu. Helstu nýmælin í barnalögunum er að móðir er nú skylduð til þess að feðra barn sitt og því foreldri sem fer með forsjánna skylt að koma á umgengni forsjárlausa aðilans og barnsins. Réttindi forsjárlausa foreldrisins hafa því verið lögfest þó svo að ekki sé kveðið á um lágmarksumgengni.
Fæðingar- og forsjárlögin marka tímamót fyrir fjölskyldur og þá feður sérstaklega. Hagsmunir feðra, mæðra og barna eru hafðir að leiðarljósi með tilkomu þessara laga. Femínistar hafa verið að berjast fyrir því að feður séu ábyrgir fyrir uppeldi og umönnun barna sinna og með þessum lögum geta feður tekið aukinn þátt í umönnun barns í frumbernsku þess.
Feður hafa verið hálf raddlausir varðandi þetta mál til þessa, en samkvæmt skoðanakönnun frá árinu 1997 sagði ríflega 80% karla að þeir myndu nýta sér þriggja mánaða fæðingarorlof ef þeir fengju þann rétt og ef að sá réttur skerti ekki möguleika móðurinnar.

Þegar kemur að skilnaði horfa dómstólar til þriggja þátta:
Hvorum aðilanum barnið er nánara, hvorum aðilanum minni röskun væri fyrir barnið að vera hjá og hvor aðilinn er líklegri til þess að tryggja umgengni við forsjárlausa foreldrið. Áður var það yfirleitt þannig að móðirin fékk barnið þar sem að meginrökin voru að hún væri nánari barninu vegna þess að hún sá að mestu um barnið frá fæðingu og á meðan fæðingarorlofinu stóð. Þetta hefur breyst þar sem að feður hafa nú öðlast rétt til fæðingarorlofs og geta þar af leiðandi verið heima fyrstu þrjá mánuði í lífi barnsins. Minni röskun er nú minna mál með sameiginlegri forsjá þar sem foreldrar koma sér saman um að deila útgjöldum og ábyrgð á velferð og uppeldi barnsins. Samkvæmt lögum ber forsjáraðila að hvetja til umgengni barns við forsjárlausa aðilann og þar af leiðandi er erfitt að segja til um hvort foreldrið væri ólíklegra til þess að tryggja umgengni.

Í dag er staðan þannig að feður á Íslandi fara með forsjá í um 7% tilvika, sem er um helmingi minna en á Norðurlöndunum. Ríkjandi viðmið samfélagsins um að börnin séu mæðranna en ekki feðranna vegna þess að þetta liggi einfaldlega betur fyrir mæðrunum er að breytast. Jafnréttismiðaðri samfélagssýn er orðin að veruleika þar sem að feður taka meiri þátt í umönnun barna sinna og jafna ábyrgð á uppeldi þeirra og hagsmunum. Aukin þátttaka karla í uppeldis- og umönnunarstörfum og aukin umræða hefur haft mikið að segja í samfélaginu, sem er nú að taka við sér.

Sameiginleg forsjá er í auknum mæli að verða meginregla þegar fólk skilur eða slítur sambúð og er það börnunum yfirleitt fyrir bestu að fá að umgangast foreldra sína til jafns.
Með tilkomu fæðingarorlofslaganna eru feður meiri þátttakendur í uppeldi og umönnun barna sinna og geta slitið sig frá vinnu án þess að það hafi alvarlegar afleiðingar fyrir efnahag heimilisins. Þar með er réttur þeirra til að vera heima orðinn að samfélagslegri viðurkenningu á föðurhlutverkinu.

Hagsmunum barnanna er best borgið þegar foreldrar geta komist að samkomulagi og deilt með sér þeirri ábyrgð sem snertir hagsmuni og þarfir barnanna. Einnig þarf að vera ákveðin hugafars- og viðhorfsbreyting í samfélaginu til þess að gera feðrum kleift að umgangast börnin sín til jafns við móðurina auk þess að viðurkenna ábyrgð og þátttöku feðra í uppeldinu. Samfélagsleg viðurkenning á föðurhlutverkinu er því hagsmunamál fyrir feður, mæður og börn þar sem að uppeldið varðar mestu.

Ráðstefnan gekk í alla staði mjög vel og eigum við hrós skilið fyrir þetta afrek. Tímamörk stóðust algjörlega og gekk ráðstefnan fyrir sig án nokkurra vankvæða.

Endilega setjið spurningar í komment eða sendið mér póst á ooa@hi.is

This page is powered by Blogger. Isn't yours?