<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, september 15, 2005

Bitri, en kurteisi gaurinn... 

Langaði til þess að deila þessu með ykkur. Þetta sendi ég á símann áðan. Ég bíð spenntur eftir viðbrögðum:

Komið þið sæl.
Ég er búinn að vera viðskiptavinur ykkar síðan í byrjun sumars og mér finnst ég vera knúinn til þess að kvarta undan vefpóstinum hjá ykkur. Ég er búinn að vera í nokkur ár hjá OgVodafone og flutti mig ekki þaðan vegna lélegrar þjónustu, heldur vegna einokunarástæðna.

-Ég skoða tölvupóstinn minn oft á dag með vefpóstinum og mér finnst það koma allt of oft fyrir á hverjum degi að mail.simnet.is/EMAIL liggur niðri. Mér þykir þetta mjög óþægilegt. Ég er með 10Mb tengingu hjá Háskóla Íslands sem er næstum því óbilandi.

-Ég nota alfarið Mozilla vafra og vefpósturinn sýnir þá ekki íslenska stafi (sem mér er svosem slétt sama um) og auk þess 'frýs' hann af og til. Þetta er kannski galli í vafranum sjálfum en það er greinilegt að vefpósturinn styður ekki alla vafra.

-Ég get ekki skoðað myndir sem eru sendar í skeytum (hvorki Mozilla né IE) nema þær séu sendar sem viðhengi.

-Ef ég er með opinn glugga og kíki einu sinni á vefpóstinn minn og skrái mig ekki út þá er vefpósturinn minn aðgengilegur fyrir hvern sem er svo lengi sem að gluggi er opinn. Aftur, mjög óþægilegt þar sem að ég er stundum með nokkra glugga opna á sama tíma og loka þeim ekki endilega öllum.

-Mér finnst mjög óþægilegt að geta ekki breytt um lykilorð á vefpóstinum sjálfur þar sem að ég vill geta haft þann möguleika að breyta um lykilorð án þess að þurfa að hafa samband sérstaklega við ykkur.

-Ég hef lent í því nokkrum sinnum að skeyti sem ég hef sent hafa ekki skilað sér. Þessi skeyti eru til í 'Send skeyti'-möppunni minni en skiluðu sér aldrei á áfangastað (þá er ég 101% viss um að hafa ýtt á 'Senda'-hnappinn en þau samt ekki skilað sér). Auk þess þá hafa nokkur skeyti sem mér hafa verið send ekki skilað sér til mín. Hjá OgVodafone er það þannig að ef einhver grunur leynist um að vírus sé í skeytinu þá fær maður sérstaka tilkynningu um að það bréf hafi verið tekið frá og að það skeyti sé aðgengilegt í gegnum þjónustuverið hjá þeim. Fyrir utan það að skeyti hafa aldrei 'týnst' þar.

-Vefpósturinn rífur í sundur setningar og það breytir engu hvort að maður stækki gluggan til fulls... setningarnar eru ennþá rifnar í sundur, þ.e. textanum er ekki þjappað til þess að passa innan gluggans.

-Einnig finnst mér það mikill tvíverknaður að þurfa að 'eyða' skeytum og 'henda' þeim svo. Ég er reyndar búinn að breyta því í stillingunum hjá mér að vefpósturinn sýni ekki eydd skeyti... en svo þarf ég að henda þeim líka!

Mig langaði til þess að koma þessu á framfæri og að sjálfsögðu krefst ég úrbóta á þessum vandamálum þar sem að ég hyggst vera áfram í viðskiptum við ykkur. Ég vona að þið getið komið til móts við mig sem viðskiptamann ykkar þó svo að ég hafi eitthvað út á ykkar þjónust að setja.

Virðingarfyllst,
Óli Örn Atlason

This page is powered by Blogger. Isn't yours?