<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, október 22, 2005

Algjörir álfar... 

Við feðgarnir fórum í dag uppí flugskýli 4 á Reykjavíkurflugvelli til þess að bera Nylon, Strákana (Audda, Pétur og Sveppa) og Íþróttaálfinn augum. Við komum tímanlega eða u.þ.b. hálftíma áður en dagskráin átti að byrja. Þarna voru fjórir hoppikastalar fyrir utan og tiltölulega lítið af krökkum. Svo 10 mínútum áður en dagskráin átti að byrja voru komin um 500 manns! Ég get svarið það að það fylltist allt þarna á nó tæm! Þegar hleypt var svo inn byrjuðu allir foreldrarnir að ryðjast inn eins og þeir ættu lífið að leysa!!! Fjórðungur var með kerrur og það tróðust allir inn eins og brjálæðingar. Fyrir innan voru nokkrir básar þar sem hægt var að fá nýja mjólkurdrykkinn frá MS (sem lítur út eins og LGG), trópí, skrá sig í verðlaunapott og tvö borð með litabókum og eitt risastórt borð fyrir miðju með ávöxtum og grænmeti. Við Hlynur vorum nokkuð framarlega í svona 45 mínútur og ekkert bólaði á íþróttaálfinum en troðningurinn var óbærilegur. Fólk ruddist eins og það gat og spáði ekkert í því hvort að það væri að troðast yfir pínkulítil börn, kerrur og vagna eða tær á öðrum fullorðnum.
Nylon-stelpurnar tóku nokkur lög og ég held að Emelía hafi tekið eftir Hlyn þegar hann veifaði til hennar. Hún veifaði allavegana til baka í áttina að honum en ég sá ekki alveg hvort það var ætlað til hans þar sem að ég var hálfur ofan í hettunni á manninum fyrir framan mig. Strákarnir komu svo aftur á eftir þeim og mér fannst það svolítið leiðinlegt að Auddi hraunaði yfir 'helgarpabba' af því að foreldrar voru búnir að týna nokkrum börnum sínum sem höfðu ratað fremst og ekki fundið foreldrana aftur. Þetta var pínku sárt vegna þess að börnin gáfu öll upp nöfn á sjálfum sér og mömmunum sem þau höfðu orðið viðskila við. Ég er ekki hissa að börnin hafi týnst útaf troðningi þar sem það var bara hreinlega ekki á allra foreldra valdi að troðast á eftir börnunum inní þvöguna. Ég vona bara að allir hafi skilað sér til réttilegra 'eigenda'.
Við fórum svo heim áður en íþróttaálfurinn kom á svið þar sem það var orðið alveg ólíft að vera þarna og troðningurinn náði alveg út fyrir dyrnar á flugskýlinu. Skipuleggjendur hafa líklegast ekki gert sér grein fyrir fjöldanum af fólkinu sem lagði leið sína á þessa skemmtun. Þegar við vorum að fara var bílaröð alveg frá flugvellinum að húsi Íslenskrar erfðagreiningar sem hreyfðist ekki rassgat! Ótrúlegt hvað fólk heldur að það komist endalaust nálægt.

Ég rakst á Dabba, Dísu og Aðalheiði Ósk þar sem þau voru á röltinu og höfðu labbað alveg frá Odda. Örugglega helmingi fljótlegra heldur en að sitja í bílnum í hálftíma til að geta sparað sér sporin...

Lag dagsins er Blinded by the light með Mannfred Mann's Earth Band...
Lifi rokkið og troðningurinn...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?