<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, nóvember 14, 2005

Draumfarir halda áfram... 

Fyrrinótt dreymdi mig alveg rosalega... Þetta er ótrúlegt hvað þetta kemur sterkt núna til mín. Ég man drauminn reyndar ekki nógu vel núna þar sem að ég vaknaði við hann og sofnaði aftur stuttu seinna... en ég sá ömmu og afa (H&H) standa svolítið í burtu frá mér og það var eins og þau væru sorgmædd. Þau störðu bæði niður fyrir sig og voru raunarleg/sorgmædd á svipinn. Það sem ég man líka ótrúlega vel eftir, úr þessum draum var að ég leit ofan í gröfina hjá Atla pabba og þar sá ég ljósbrúna líkkistu og það vantaði á hana lokið. Ég er ekki viss hvort að þetta hafi verið ég eða pabbi sem lá í henni en sá sem lá í henni lá þannig að líkaminn var eins og ef maður lægi í þægindastól nema hvað að það sást ekkert í lappirnar fyrir mold. Moldin náði semsagt upp að mitti og það var ekkert hræðilegt við þetta lík (þ.e. það leit ekkert illa út) þannig að þetta var enginn hryllingur. Mér fannst samt, og ég sagði við Karen þegar ég vaknaði að mig hefði dreymt að einhver hefði svívirt gröfina hans pabba. Kannski aðeins of sterkt til orða tekið... en einhvern veginn fannst mér það. Mér finnst þetta ótrúlega merkilegt af því að frá því að afi dó hefur mig aðeins dreymt hann einu sinni.

Ég fór til Veigu gömlu á Höfða til þess að láta hana ráða í drauminn fyrir mig á sínum tíma. Og þá var sá draumur fyrir barni Helgu og Alex (Nínu). Afi sat þá með lítið barn í fanginu og hélt á lítilli bók, sem mér sýndist vera litabók, en á framhluta kápunnar voru stafirnir ABC. Veiga spurði mig strax hvort að ég ætti von á barni en hún sagði bara: „ahh“ þegar ég sagði henni að Helga systir væri ófrísk. Hún útskýrði ahh-ið ekkert frekar en að afi vakti yfir því barni og að ég myndi komast að því seinna meir... mig grunar nú ýmislegt núna þegar ég fer að hugsa um það... en þetta fer að verða svolítið spúkí þegar mann dreymir svona mikið og fær ekki neinar almennilegar ráðningar í þetta. Ég vona samt að þetta sé allt gott. Draumráðningabókin hans Símonar vill nú meina að það sé flest af því sem mig dreymdi í draumnum í fyrrinótt sé fyrir góðu. Spurning hvort að maður lætur sér það nægja?

This page is powered by Blogger. Isn't yours?