<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Hvíl í friði... 

Leirá í Borgarfirði... þar fékk ég mitt fyrsta raflost, fór fyrst á hestbak, sat fyrst í traktor, sat fyrst á fjórhjóli, lék ég mér fyrst í hlöðu, bragðaði ég fyrst mjólkina beint úr kúnni, á ég góðar æskuminningar.
Það var oft sunnudagsrúntur hjá afa að fara með okkur gríslingana, ein eða öll systkinin uppí Borgarnes til þess að fá okkur ís og svo var iðulega komið við á Leirá á heimleiðinni. Það var alltaf vel tekið á móti okkur og ég gleymi seint öllum kökunum og kræsingunum sem voru á boðstólnum á Leirá. Seinna meir fórum við oftar til þess að hitta frændur mína; Arnar, Stefán og Hlyn. Það var nú yfirleitt prakkarast eitthvað en ég gleymi því aldrei þegar við vorum í eltingaleik og við hlupum að einni girðingunni. Ég greip í girðinguna og svo sá ég bara himininn þegar ég opnaði augun, fann að ég lá í grasinu og það vantaði nokkrar sekúndur þarna á milli. Það var yndislegur tími.
Frændur mínir voru miklu fljótari að vera 'hestum hæfir' en ég, þar sem að ég var ekki eins oft uppá Leirá eins og þeir, en þegar ég loks fór að sitja hest þá tók ég miklu ástfóstri við Eldingu, gamla truntu sem við kölluðum alltaf Þrumarann vegna þess að hún rak við í öðru hverju skrefi... bókstaflega.

Í seinni tíð var ég mjög stoltur af því að landið var ein stærsta jörðin á Íslandi, lengi vel og hversu mikið langafi minn lagði af mörkum til sveitarinnar. Langamma mín var líka ein af fyrstu konunum á Íslandi sem útskrifuðust úr Flensborg með kennaramenntun en hún lærði fyrstu árin eftir að skólinn var settur á laggirnar 1904 að mig minnir. Kirkjugarðurinn á landareigninni geymir marga sögufræga Íslendinga og í kirkjunni á Leirá er að finna eintak af Leirgerði (minnir mig) sem Magnús Stephensen prentaði í prentsmiðjunni að Leirárgörðum.

Þeir eru nú allir látnir synir Júlíusar Bjarnasonar; Helgi, Þórður, Bjarni og Kristinn, bræðurnir frá Leirá.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?