<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, desember 16, 2005

Ég vissi það alltaf... 

að Hlynur væri jólasveinn. Hann ber nafnið Nammisníkir svo með rentu að það hálfa væri nóg. Ég var að grínast um það á blogginu hjá Karen að við feðgarnir værum jólasveinar; Nammisníkir og Flotturgaur. Ég ber jólasveinanafnið Flotturgaur reyndar líka með rentu... af því að ég er flottur gaur en við feðgarnir fórum ásamt Ágústi Smára til Sýslumannsins í Reykjavík á jólaskemmtun. Karen beið þar eftir okkur og við héldum rakleitt upp á aðra hæð þar sem jólatréð stóð á miðju gólfi og ömmur og mömmur gengu og dönsuðu í kringum jólatréð með börnin í fanginu eða við hlið sér á meðan þau sungu öll jólalög í kór. Jólasveinarnir komu svo askvaðandi, að mér sýndist, frá Miklubrautinni, Stúfur í hjólbörum og Stekkjastaur að keyra hjólbörurnar.
Stúfur, sem ég er eiginlega farinn að kalla Stúrinn eftir þessa heimsókn, var fallega bitur út í mömmu sína. Grýla var víst eitthvað að 'siða' þá bræður til með teppabankara og Stúfur var svo sár að hann rændi bankaranum frá henni og ætlaði aldrei að skila honum aftur. Hann var svo bitur yfir þessarri rassskellingu að ég hreinlega stóð þarna agndofa yfir meistaratúlkun á þessu bitra hlutskipti hans í lífinu! Það kom líka í ljós þegar krakkarnir tóku eftir því að Stekkjastaur var ekki með staurfætur að hann hafði farið í bæklunaraðgerð og fengið nýja hnjáliði. Merkilegt nokk... ég velti því reyndar fyrir mér hvort að Tryggingastofnun Ríkisins greiddi þá aðgerða niður alla, eða að hluta og einnig hvort að þeir bræður væru í einhverju sjúkrasamlagi eða með sjúkra- og/eða slysatryggingu. Þarf maður þá ekki að borga skatta? eða í það minnsta að telja fram? Ég lagði nú ekki í það að spyrja en þeir hljóta að hafa fixað þetta einhvern veginn... ég myndi allaveganna ekki leggja í það að skemmta fyrir framan allt starfsfólk sýslumannsembættis og vera með eitthvað óhreint í pokahorninu... ekki nóg með alla lögfræðingana sem vinna þarna heldur væri líka hægt að taka fjárnám, eignarnám og ég-veit-ekki-hvað-nám á mann áður en maður gæti sagt: „Og hvað heitir þú, óþekka barn?“

Kom mér reyndar á óvart hvað allir krakkarnir kunna þessi lög vel og kom mér líka ótrúlega skemmtilega á óvart hvað bekkjasystkin Hlyns stóðu sig vel í dag á jólaskemmtuninni sem var haldin í bekknum hans. Þetta eru ótrúlega krúttleg börn sem stóðu sig eins og hetjur fyrir framan þrjá eða fjóra fulla bekki af foreldrum. Þau kunnu vísur alveg fram og til baka og sumum þeirra var mest í mun að koma þeim frá sér á eins stuttum tíma og hægt var!:

Segjavilégsöguafsveinunumþeim,
sembrugðusérhérforðumábæinaheim.

Þeiruppiáfjöllumsáust,einsogmargurveit,
ílangrihalarófuáleiðniðurísveit.

En það var bara krúttlegt.

Hlynur fékk semsagt nammi frá Stekkjastaur, og var meira að segja að verða svolítið súr því að hann fékk ekki slikkerí frá honum alveg strax. Svo púllaði hann Nammisníki á Stúf rétt áður en þeir kumpánar fóru. Það ríkti samt mikil kátína þegar Hlynur spurði bræðurna hátt og skýrt: „Hvar er jólakvikindið[kötturinn]?“ -„Hvar heyrðir þú þetta???“ þrumaði Stúfur á hann en það var fátt um svör og Hlynur læddist í burtu, líklegast að plotta það hvernig hann kæmist yfir meira gotterí!

Lag dagsins er: Út með jólaköttinn sem Laddi gerði ódauðlegt. Þegar maður heyrir þetta lag af vínyl, þá eru komin jól.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?