<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, nóvember 06, 2006

Sko!!! 

Nú á að fara að gera 3 virkjanir í viðbót til þess að eiga nóg rafmagn. Sem er gott og blessað þannig séð... en nú þurfum við og stjórnmálamennirnir, sem við kjósum aftur og aftur til þess að vera í málsvari fyrir okkar skoðanir og hugmyndir, að taka hausinn úr rassinum og skafa skítinn af gleraugunum! Í fyrsta lagi þá er ég hlynntur því að taka land undir rafmagnsframleiðslu sem fer svo í stóriðju en ég er ekki hlynntur því að gera það með eignanámi eins og hefur verið iðkað alveg frá því að við byrjuðum að búa á þessu fallegustu náttúruparadís í heiminum (finniði kaldhæðnina?!?). Það hefur verið þannig í gegnum tíðina að kirkjunnar menn og aðrir uppar, hvort sem að þeir hafa verið ríkari en aðrir eða með sterkari sambönd, hafa tekið jarðir eignarnámi frá bændum og í mesta lagi sett einhver lög til þess að réttlæta þetta svo að það er ekki hægt að segja neitt við því. Það er kannski vegna yfirgangs yfir þessa stétt sem að beingreiðslurnar voru settar á?

Nú er ég, eins og flestir íslendingar kominn af bændum. Já, langafi minn hann Júlíus Bjarnason bjó á Leirá í Borgarfirði og rak þar stórt bú á stóru landi. En langamma mín Hallfríður Helgadóttir var ein af þeim fyrstu konum á Íslandi til að mennta sig til kennarans úr Flensborg rétt uppúr aldarmótunum 1900. Hvort heldur að það hafi verið hugsjón eða nauðsyn til þess að reka heimilið þá var hún fyrirmyndarkennari.
Ég er reyndar alfarið á móti því að ríkið haldi uppi ákveðinni stétt, ja, alveg eins og einhverri ákveðinni trú. Þetta er allt saman spurning um hvort að það borgi sig... hvernig?

Sko, ef það er til dæmis ekki hægt að bjóða upp á einhverja landbúnaðarvöru, hvort heldur grænmeti, fiðurfé eða annan búfénað, öðruvísi en að þurfa að margborga fyrir það þá er held ég bara best að sleppa því. Ég meina... ef ég er að borga hluta af skattpeningum mínum í halda uppi búfénaðinum og þarf svo að borga tvöfalt meira fyrir það heldur en erlenda vöru þá kaupir maður heldur bara útlenska vöru og styrkir bara íslenska kryddgerð í staðinn. Það er jú einu sinni sú leið sem var farin þegar kjötið var gamalt eða skemmt í gamla daga. Auk þess þá á maður erfitt með að skilja það að það 'borgi' sig að urða fleiri fleiri tonnum af kjöti í staðinn fyrir að láta íslensku þegnana njóta góðs af því og geta fengið vöruna ódýrari. En svoleiðis er þetta bara í lífinu... það er ekkert ókeypis! Þetta er bara eins og með afnám matarskattsins... það er alveg dottið út úr umræðunni... af hverju? AF ÞVÍ AÐ ÞAÐ VERÐUR EKKERT AF ÞVÍ!!!

En allaveganna... þá finnst mér það flott ef að fólk finnur sig í landbúnaðinum... en það er eins og allt annað í lífinu val og fólk þarf bara að átta sig á því að ef það hefur ekki efni á því þá verður það bara að svissa til og reyna að finna einhverja aðra leið til þess að eiga í sig og á. Alfarið mín skoðun.

En yfir í virkjanirnar aftur... þá er það líka spurning um að það 'borgi sig'. Ég hef áður rætt um margföldunaráhrif og þetta getur haft mjög mikinn efnahagsvöxt í kjölfarið en þetta er kannski of mikil fljótfærni ef það er ekki til starfsfólk til þess að manna stöðurnar í stækkuðum stóriðjum. Sjáið bara hvað er að gerast hjá ónefndu álveri... þar er ekki hægt að fá starfsfólk af því að launin eru lág og vinnuálagið mikið. Það er allaveganna ekki hægt að fá innlent vinnuafl.
Núna þegar Ómar er hættur að sigla þá er spurning um að setja næstu virkjanir strax í gang til þess að halda honum við efnið... segi svona... en mér hefur alltaf fundist Ómar vera flottur gaur þó svo að hann sé svolítið ýktur. Sá á bloggi um daginn að það var aldrei fjallað um Kárahnjúka, hvorki í Stiklum né öðru, fyrr en að átti að virkja þar. Þá fór fólk að gera stykkin sín í buxurnar í unnvörpum... og flytja þurfti inn mótmælendur vegna þess að þeim sem fannst þetta vera algjör synd og að við værum að eyðileggja landið fyrir komandi kynslóðum ákváðu að mótmæla í 101 Reykjavík. Sem er náttúrulega gott og blessað út af fyrir sig... en segir held ég meira um hvað þetta fólk nennti að bera sig eftir því að mótmæla. Alltof seint og gat ekki einu sinni farið uppá Kárahnjúkana.

Það er alltaf verið að tala um hvað þetta er mikil sóun á náttúrunni og hversu mikil náttúrufegurðin er en samt erum við 300.000 íslendingar hérna (c.a. 1% pólverjar þó) en væri ekki ráð að skoða t.d. hvað við erum að fá mikið út úr ferðamennskunni á móti því sem að við fáum fyrir framleiðsluna? Þá komum við aftur að umræðunni um hvort að það 'borgi sig'. Af hverju ekki bara að markaðsetja okkur sem landið með flestum virkjununum? Held að það gæti trekkt að :)

En yfir í innflytjendur og vinnuafl þá spyr maður sig hvers vegna íslendingar fara ekki að fordæmi frænda okkar í Danmörku þar sem verkalýsforystan kom bara á stífum vinnureglum í kringum innflutt vinnuafl og tryggði innflytjendum sömu laun og danska vinnuaflinu og þar með hættu danirnir að flytja inn ódýrara starfsfólk. Það gæti líka sett einhverjar hömlur á þennan innflutning.
Ég get nú sagt að ég þekki til pólverja sem hafa komið hingað og vinna hörðum höndum við að leggja sitt af mörkum og eru ekki að koma hingað til þess að misnota land, þjóð og konurnar okkar. Þó svo að þeir leynist inná milli.

Þannig að ég legg til að verkalýðsforystan hætti að vera vitleysingar og girði upp um sig og setji þröngar og stífar vinnureglur sem tryggja ákveðin grunnlaun og ráðamenn þjóðarinnar þurfa að setja skýr og einföld lög með hörðum viðurlögum. Þá ætti að grynnka eitthvað á því að fyrirtæki misnoti fólk sem kemur hingað í góðri trú því að það er í raun það sem þetta er. Ég sé þetta þannig að þau séu að snúa baki í samlanda sína til þess að geta misnotað annað fólk sem veit ekki betur og þar af leiðandi minnki flaumurinn aðeins. Það ætti kannski líka að geta tryggt mannsæmandi laun fyrir fleiri stéttir en alþingismennina...
Þegar allir eru komnir með sömu laun þá er hægt að athuga grundvöllinn fyrir því hvort að það sé til nóg af fólki til þess að manna stöðurnar í stóriðjunni og hvort að það 'borgi sig' fyrir fyrirtækin að ráða fólk til vinnu (þá bæði launalega séð og á kostnað náttúru okkar) og þegar það er komið á hreint þá ætti það að vera nokkuð ljóst hvort að við ættum að skellta okkur út í fleiri virkjanaframkvæmdir.

Stutt og hnitmiðað... ekki satt?

Lag dagsins er lag nr. 666 í winampinu mínu sem heitir 'Love her madly' með 'The Doors'

This page is powered by Blogger. Isn't yours?