<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, desember 24, 2006

Árlegur jólapistill! 

Ég tók þá ákvörðun í fyrra að hætta að senda jólakort. Ég ákvað að gefa pening til hjálparstarfs í staðinn og mér finnst það vera mjög verðlaunandi. Ég nenni ekki að festast í einhverjum vítahring jólakorta þannig að ég ætla héreftir að henda inn árlegum jólapistli á aðfangadag þar sem ég dreg saman helstu viðburði líðandi árs.

Það hefur mikið á daga mína drifið undanfarið ár. Það er helst frá því að segja þegar ég eyddi jólunum seinustu og hálfum janúar í ritgerðasmíð. Ritgerðin fæddist á tilætluðum tíma og ég náði BA áfanganum í uppeldis- og menntunarfræðinni. Það var erfiður og skemmtilegur tími á víxl og maður sér á bæði raunatímum og góðum tímum hversu gott bakland maður hefur í fjölskyldu og vinum.

Í kringum útskriftina fluttum við Karen og Hlynur yfir Eggertsgötuna úr númer 16 í 22. Það var löngu tímabær þörf af því að það er erfitt fyrir tvær og jafnvel þrjár prinsessur (eins og í okkar tilfelli) að fóta sig almennilega í 36 fermetrum. Við erum aðeins ánægðari hér en þar.

Hlynur varð 7 ára á árinu og er búinn að stækka um rúmlega 5 sentimetra á árinu auk þess að tapa nokkrum tönnum (ekki í slagsmálum þó) og fá nokkrar 'fullorðins' í staðinn.

Mér fannst alveg ómissandi að heyra í Pétri, Matta og Einari á fimmtudögum á árinu sem er að líða auk þess að Dúndurfréttatónleikarnir sem ég skellti mér á eru meðal 'higlights' á þessu ári.

Sjálfur var ég að spila á föstudögum á Café Victor ásamt Villa og Tobba í maí, júní og svo með Arnari í Júlí. Það var gaman.

Mestu breytingarnar byrjuðu svo í sumar þegar ég hætti að vinna í álverinu og fór að vinna fyrir Félagsvísindastofnun. Þá losnaði svolítið um dagskránna og Hlynur var næstum allt sumarið hjá okkur.

Í ágúst fékk ég svo vinnu sem námsráðgjafi í Hagaskóla Íslands og nágrennis og hélt jafnframt áfram með M.Ed. námið mitt í Háskólanum. Það er búinn að vera svolítið brjálaður tími vegna þess að það fylgir því náttúrulega mikið álag að koma inn í nýtt starf auk þess að álagið í skólanum hefur verið mikið. Ég hef átt mjög farsæla lendingu þar og það er mér mikils virði að hafa yfirmenn sem hrósa manni þegar maður stendur sig vel og það hefur stjórn skólans svo sannarlega gert... auk þess að ég hef náttúrulega margsannað mig ;)
Nemendurnir eru hreint frábærir og hafa tekið mér sem hálfgerðum stóra bróður þó svo að ég líti á þau sem börnin mín :D Ég kann mjög vel við mig í Hagaskóla og það skemmir ekki fyrir að vera að vinna með frábærum kennurum og öðru starfsfólki. Ég hef verið að spila með krökkunum í hádeginu á föstudögum en það hefur minnkað eftir því sem líður á veturinn en það kannski skánar eftir áramót. Þetta er í raun þau fáu skipti sem ég hef getað gripið í gítar.

Ég eignaðist tvo gítara í ár... 12 strengja kassa og draumagítarinn Fender Telecaster 60 ára afmælisútgáfu. Þá er stefnan að reyna að spila eitthvað á þá á næsta ári...

Að öðru leyti þá hefur þetta verið skemmtilegt og viðburðaríkt ár. Ég er ástfanginn upp fyrir haus, á frábæra kærustu og yndislega fjölskyldu og er bara virkilega sáttur við mitt hlutskipti í lífinu. Framundan verað vonandi skemmtilegir og ögrandi tímar svo maður haldi nú áfram að þroskast og vaxa.

Að lokum vil ég þakka lesendum mínum fyrir komuna og kvitt og óska ykkur jafnframt gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Ég vona innilega að þið hafið það sem allra best á nýju ári og í framtíðinni.
Með þökk og bestu kveðju,
Óli Örn Atlason

This page is powered by Blogger. Isn't yours?