<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, ágúst 28, 2007

Draumalangloka... 

í mörgum lögum í nótt... leyfi ykkur að skyggnast inn í eitt lagið af draumaheimi mínum í nótt...

3. Ég kem upp að sveitabæ þar sem ég er að fara að jafna innkeyrslu úr möl sem er mjög brött upp í mót inn í vöruhús eða stóran bílskúr. Samt þegar ég er að þjappa þetta líður mér eins og ég sé að keyra lyftara og hann er mjög valtur á sandinum. Ég stoppa og spyr karlana hvort að þeir séu sáttir við þetta en segi þeim að það sé hægt að nýta mölina betur af því að það eru miklir og ójafnir hólar á þessum malar/sandhól/innkeyrslu. Þetta eru þrír fullorðnir bræður sem eiga heima að Ytri-Hólmi sem er sveitabær rétt fyrir utan Akranes. Ég er léttklæddur inni hjá þeim en þegar ég er að fara aftur út þá tek ég eftir einum bræðranna sem stendur úti í kuldanum (allt í einu kominn snjór úti) á nærbuxunum og sýpur á kaffi.

Ég fer í síðerma þunna peysu og er að fara í svörtu dúnúlpuna mína þegar sonur þeirra kemur og býður mér hrísgrjón úr gömlu máðu glasi með stórri gamalli silfurskeið í. Þegar hann kemur nær og er að fara að mata mig þá tek ég eftir því að í glasinu, undir grjónunum, eru falskar tennur. Ég hætti snarlega við að fá mér og hann hættir við að gefa mér þetta.

Þá eru Bryndís og Hulda frænka allt í einu komnar þarna og ég elti þær inn í einhverja stofu í húsinu. Þar sitja mamma, Þóra og Helga systir og þegar ég er að fara að gera mig líklegan til þess að fara út þá segir Hulda að þarna sé eitthvað frá afa sem var að finnast.

Ég lít út og sé þá yfir Akranesi að það er eins og það sé einhver hátíð í gangi. Þarna eru margar flugvélar á lofti í listflugi og það kemur reykur úr þeim öllum. Tvær eða þrjár vélar eru samt með alveg svartan reyk. Ein flýgur út að tanganum sem bærinn er á og þegar hún kemur nær þá sé ég að þetta er flugvél sem er eins og hamar í laginu. Hún flýgur þarna að og snýr við til að halda til baka og þegar hún snýr við þá kemur einhver kippur á hana þegar hún ‘gefur aftur í’ og jólaserían sem er á henni slitnar og það hrynja nokkrar jólakúlur af...

Bryndís frænka snýr sér í sætinu sem hún situr í og teygir sig aftur á bak og nær í þrjá litla samanbrotna blaðasnepla. Einn er fölbleikur, einn er svartur og hvítur (eins og blekklessupróf Rorschach) og ég man ekki litinn á þriðja. Hún raðar þeim þremur eins og spilum á hendi og býður okkur að taka einn hver. Við erum klárlega fleiri en 3 þannig að ég fæ einn, Helga systir einn og Hulda einn. Þegar ég opna minn þá blasir við mér eldgömul ljósmynd af mömmu og ömmu Lillu. Þetta er bara ein mynd, með brot í miðjunni en svo er eins og það sé hægt að flétta myndinni og þarna koma fleiri myndir í ljós. Svo byrja myndirnar að birtast mér á fullu og þetta verður eins og að horfa á fleiri, fleiri myndir í ljósmyndaseríum. Bæði myndir sem eru teknar í röð eftir stund og stað þannig að þetta virkar eins og gömul hreyfimynd og líka myndir sem eru teknar yfir lengri tíma þannig að maður getur bókstaflega séð manneskjuna vaxa úr barndómi.

Þetta er greinilega að gerast hjá Helgu líka út af því að þær þrjár eru að dást að myndunum. Ég tók ekki eftir því hvað gerðist hjá Huldu.

Myndirnar sýndu okkur systkinin í barnæsku, gamlar myndir af afa og alltaf inn á milli komu myndir af skýjum á heiðum himni sem voru eins og þær voru teknar með 5-10 mínútna millibili þannig að skýið var fyrst þétt en þynntist svo þegar það kom í áttina að mér, einhverjar 5-6 myndir í seríunni. Það var reyndar ein mynd af afa en hann var ekkert líkur sjálfum sér. Þetta voru myndir af honum þegar hann var ungur en samt var hann rúmlega miðaldra á þessum myndum og með hvítt alskegg.

Ég verð alveg miður mín að sjá allar þessar myndir en samt ánægður og fullur dásemdar yfir þessu.


Any ideas?!?

This page is powered by Blogger. Isn't yours?