<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Köben, ruslapokaferðin og rassálfarnir! 

Jæja... maður er að skríða saman eftir margra daga pakka núna... allt að koma... Einhverjir hafa þegar skoðað bloggið hjá ektakvinnunni og tekið eftir því að við eyddum helginni í Kaupmannahöfn. Ég ætla samt sem áður að koma með 'mína útgáfu' afissu svo að þetta fari ekkert á milli mála :þ

Föstudagur
Byrjuðum daginn snemma og þó svo að það væri fátt sem kæmi út úr því nema að við sluppum við allar raðir þá var það alveg 45 mínútna biðar virði! Útrætt! Við lentum á Castrup rétt fyrir hádegi að staðartíma og skelltum okkur í lest inn á Höfuðbanann. Skelltum töskunum í geymslu og hittum Óla sr., afhentum honum 4 kíló af nammi og fengum okkur einn öl á meðan við biðum eftir Stinu (má maður beygja erlend nöfn?). Við spjölluðum um daginn og veginn áður en leiðir okkar skildu og við strunsuðum í átt að Strikinu. Versluðum alveg í lágmarki þar og hittum Lóu sem fór svo með okkur heim til hennar og Þrastar. Við stoppuðum á einum stað á leiðinni til L+Þ en það var bara til þess að kasta mæðinni af því að Karen var komin með 'shaken-babe-syndrome' eins og sést á þessari mynd:

Hjá L+Þ skildum við föggurnar eftir og fórum í Fisketorvet að versla. Það gekk ágætlega og það var næs að fara svo heim til Lóu og Þrastar aftur alveg búin á því eftir maraþon-göngu yfir daginn. Ég ætlaði að vera geðveikt duglegur að taka bara leigara en endaði svo með því að fara næstum því eingöngu með lest þessa helgina. Við lognuðumst svo bara útaf í rólegheitunum og vöknuðum fersk daginn eftir, útsofin og lekkert! Þriggja-kettlinga sturtan hjá L+Þ var ekki alveg að gera það fyrir mig, sem er vanur því að fara í sjóðandi heita og kraftmikla sturtu. Kettlingastaðallinn virkar þannig að hann segir til um hvað margir kettlingar virðast vera að sleikja mann út frá krafti sturtunnar og dreifingu vatns. Til samanburðar þá má geta þess að sturtan okkar hérna heima er tvöhundruðmilljónþúsund-kettlinga...

Laugardagur
Dagurinn byrjaði á brunch með úrvali dauðans. Ég borðaði á við hest, en það er einmitt skemmtilegt frá því að segja að hestur er þjóðardýr Dana og dönsku hestarnir borða eingöngu baunir og rækjur... en það er allt önnur saga... Svo fórum við í lest og heim til mömmu og Þórðar. Það var flott að vera þar hjá þeim og tsjilla bara allan daginn. Þetta er ótrúlega heimilislegt hjá þeim og ég sé eftir því að hafa ekki smellt af einhverjum myndum þar vegna þess að í nákvæmlega þessari íbúð er stærsta baðherbergi í Danmörku! Þetta er ekki djók... ég man eftir því þegar ég gisti hjá Þórhildi um Hróarskelduhátíðina 2005 að þá var það þannig að baðherbergið hjá henni var svo lítið að maður gat ekki einu sinni skipt um skoðun í íbúðinni! Maður þurfti að girða niðrum sig í eldhúsinu, setja hægri höndina eins langt fyrir aftan bak og maður gat, vinstri höndina niður með hægri síðunni, beygja sig í hnjánum og bakka blindandi inn! Ef maður ætlaði í sturtu þar, þá var best að sápa sig vel áður en maður fór inn á baðherbergið og svo dróg maður sturtuhengið fyrir, í hring utan um sig og maður þreif klósettið, vaskinn og restina af baðherberginu á sama tíma, annað hvort með olnbogunum eða hnjánum.
Eftir afslöppun, spjall og ferðasögur þá fórum við niður í bæ á Reef N' Beef þar sem við fengum svo himneskan mat og æðislega þjónustu að það hálfa væri nóg! Forréttirnir litu svona út:

Krókódíll:


Kengúru-carpaccio:


Eftir aðalréttina:


fengum við svo eftirréttina:


og þetta var eins geðveikt og það gerist!!! Ég á eftir að fara þarna í hvert skipti sem ég fer til Köben héðan í frá... annað er bara ekki í boði!

Þaðan fórum við svo á Wolfmother tónleikana sem voru svo mikil snilld að það hálfa væri nóg!!! Vega-staðurinn er svo geðveikur fyrir svona tónleika að það kom mér virkilega á óvart! Við sátum á efri hæðinni og frekar aftarlega fyrir miðju en við sáum allt! Það stendur alveg uppúr að Andrew Stockdale (söngvari/gítarleikari) var í nett skrítnu 'átfitti' og í eins þröngum buxum og hann var í þá voru spóaleggirnir hans alveg út um allt svið! Hrikalega fyndið dæmi! Það sést kannski ekki vel á þessari mynd... og gerir skónum hans engan veginn skil... en betur sjá augu en auga:Mér fannst einna skemmtilegast líka að sjá að kauði er með góðan smekk... en þeir sem hafa farið á heimasíðu Wolfmother hafa kannski tekið eftir Marshall (gítarmagnara-)hausnum að baki Andrews en sú var ekki raunin þarna... hann var með tvo Orange hausa og hrúguna af Gibson gíturum með sér. Sejetturinn hvað þetta voru þéttir tónleikar og hvað mússíkin þeirra er flott. Alveg geðveikt. Arnar: ég held að hann hafi verið með 2 x 30w ;) Weapon of choice!
Ég var ótrúlega heppinn að hafa skilið framhleypinginn minn eftir heima því að hann hefði örugglega verið gerður upptækur á tónleikunum!

Þó slapp ég inn með nokkra flugelda...

Sunnudagur
Búinn að gleyma honum... sem betur fer... kostaði mig reyndar Svart Gull en ég kyngi því bara eins og sönnum karlmanni sæmir...

Mánudagur, þriðjudagur, miðvikudagur
'Ruslapokaferð' þar sem ekki var hægt að skíða... þá renndum við okkur bara á ruslapokum. Var semsagt í 'skíðaferðalagi' með 10. bekkingum í Bláfjöllum. Mér blöskraði svolítið hvað mörg þeirra voru illa upp alin, dónaleg, frek og hvað þurfi að hafa fyrir þeim... en það voru mörg þarna líka sem ég bjóst einmitt við svona framkomu sem sýndu sínar allra bestu hliðar og tóku meira að segja einna harðast á því í þrifunum! Merkilegt... En skemmtilegt. Annars er þetta með rassálfana í hausnum á þessum pósti er vísun í rassálfana úr Ronju ræningjadóttur en krakkarnir voru með réttindin sín á hreinu en ekkert af skyldunum... svo ef þau áttu að fara eftir skálareglum eða einhverju sem við báðu þau eða sögðu þeim þá púlluðu þau bara rassálfana á okkur... Ákkuru? Ákkuru? Ákkuru? Ákkuru? Ákkuru? Ákkuru? Ákkuru? Ákkuru?

Ég fór í gærkvöldi úr Breiðabliksskálanum yfir í Skíðaskála Ármanns til þess að skella þjófavörninni á og svo á leiðinni til baka fékk ég þá snilldarhugmynd að rölta upp í fjall og renna mér niður á brotnum þoturass+ruslapoka til þess að vera fyrr til baka. EKKI GÓÐ HUGMYND!!! Málið var að hluti af brekkunni (þar sem ég fór, nánar tiltekið) hafði verið troðinn einhverjum dögum áður og það var svo mikið frost í snjónum að hann var bara hreinlega eins og malbik. Harður, sléttur og frosinn. Ég settist á kvikindið og hugsaði mig einu sinni enn um... lét svo vaða og fór strax að sjá eftir því! Ég fór á svoleiðist þvílíka ferð að mér leið einna helst eins og í svona bobbsleða! Ég setti hælana niður til að bremsa en það var bara djók af því að það gerði ekkert fyrir mig... ég er kominn á einhvern úber hraða þarna á leiðinni niður og langar að fara að stöðva mig svo ég hefði ekki farið á fullri ferð út í svona bakka af snjótroðningi sem hefði verið MJÖG sársaukafullt og EKKI skemmtilegt en þá allt í einu skýst draslið undan mér og ég renn áfram á SAMA hraða á rassinum í kuldagallanum sem ég var í! Ekki leið á löngu þar til mér var farið að hitna verulega á rassinum... og þá meina ég verulega og ég var ekkert að hægja ferðina!!! Eini sénsinn fyrir mig, til þess að brenna ekki af mér rassgatið og stórskadda sálir krakkana þegar ég hefði náð til baka í skálann, var að leggjast á bakið, henda löppunum upp í loft og keyra báða hælana á mér samtímis í klakann. Ég hugsa að ég hafi stoppað á svona 5-6 metrum... sem betur fer... Ég átti svo 5 mínútna labb eftir stoppið í skálann og rasskinnarnar voru ennþá heitar þegar ég kom inn í Breiðabliksskálann. WWRRRRRRÓSALEGT!!!

Samt ágætt... og öll neikvæðni sem maður upplifði hvarf eins og dögg fyrir sólu þegar maður læddist inn í svefnskálana klukkan 8 að morgni, með gítar að vopni og söng krakkaskarann á fætur! Þetta er án efa versti áheyrendaskari sem ég hef lent í... en það er kannski aðstæðubundið? :þ Svo varð ég mjög kátur og fyrirgaf allt þegar um 9 leytið í morgun náði ég restinni af purkunum fram úr með 10 lítra pott og sleif. Það var mikill hávaði :)

En hey... gaman að vera kominn aftur í siðmenninguna, almennilega sturtu, rúmið og í faðm kærustunnar sem tók á móti mér í dag í frönskum-rennilás-búningi og er búin að vera á mér í allan dag. Hún er hérna á bakinu á mér núna as-we-speak og biður kærlega að heilsa :þ
Heyri í ykkur fljótlega... Lag dagsins er Mind's Eye með Wolfmother.

miðvikudagur, febrúar 14, 2007

Nýrómantík! 

Fallegur dagur í dag... gott veður, brjálað að gera en tókst samt sem áður að verða næstseinasti gaurinn í Evrópu til þess að kaupa blóm í tilefni dagsins. Fékk reyndar fínar bleikar og rauðar rósir þannig að ég er sáttur og Karen er sátt :)
Karen púllaði fast one á mig og verslaði eldrautt konfekt í staðinn sem við grilluðum í blíðunni. Það jafnast bara fátt við íslenska lambið og ég fer líklegast aldrei af þeirri skoðun. Stykkið sem ég fékk mér var borderline raw/rare, eins og það á að vera, og það var ótrúlega gott.

Ugly Betty kemur sterk inn í þáttaflóruna sem er í gangi núna en það kemst eiginlega ekkert að, annað en Danmörk!!! Fékk sms áðan sem var einhvern veginn á þessa leið: Tuborg Classic á krana á 10 kr. Meeeeeeeen! Mig langar í Tuborg Classic af krana! Óréttlæti í þessum heimi...

Lag dagsins er Vi er röde, vi er hvide... lag sem ég fæ alltaf á heilann rétt áður en ég fer til Danmerkur (sjá archive)...

sunnudagur, febrúar 11, 2007

Draumfarir og annað... 

Búinn að vera að dreyma mikið uppá síðkastið... skrýtnir draumar... Spái svosem ekki meira í því... læt Betu tengdó ráða í þetta fyrir mig. Þægilegt að hafa svona draumráðningabók í fjölskyldunni :)

Af öðru þá styttist verulega í Danmörku, Wolfmother, Reef n' Beef og fleira skemmtilegt sem hægt er að gera í kóngsins Köben. Það verður líka gaman að hitta mömmu og Þórð... það virðist vera eitthvað svo langt síðan maður hitti þau seinast... en það er kannski bara af því að við höfum heyrt í þeim nokkuð oft í síma... það getur verið...

En að enn öðru þá er ég feginn að Akraneskaupstaður er farinn að ráða fólk með menntun... En sérkennilegt hvað paranoíjan er að gera útaf við suma... svona ofan á allt hitt... en þannig eridda bara stundum.

Lifi rokkið, næsta laugardag, alveg bókað!

fimmtudagur, febrúar 08, 2007

Haus úr rassi!!! 

Icelandexpress er með ferð um þarnæstu helgi 16.-18. febrúar á Wolfmother tónleika í Vega-höllinni í Kaupmannahöfn. Verðið á þessu er komið niður í 34.900,- sem er ekki neitt! Ég er reyndar mjög ósáttur við Icelandexpress fyrir að rukka 17.000 krónur í kostnað og gjöld af fluginu okkar... þetta er algjört rán og hlýtur að brjóta í bága við samkeppnislög vegna þess að þetta eru misvísandi upplýsingar... algjörlega. En inní þessum pakka hjá Icelandexpress er einhver fararstjórn frá honum Óla Palla á Rás 2, miði á tónleikana með Wolfmother OG gisting á hóteli í 2 nætur... þetta verður ekki ódýrara! Þannig að landar mínir, tónleikaunendur og rokkarar... haus úr rassi og hitta mig sveittan í Köben á Wolfmother tónleikum!!!

Lifi rokkið!!! Lag dagsins er fyrsta platan með Wolfmother


Breiðuvíkurmálið... 

Vissulega sammála því að það þarf að taka þetta mál upp og skoða það vel og vandlega... en þýðir þetta að við þurfum að bíða í 30-40 ár eftir því að farið verði ofan í saumana á kynferðislegri misnotkun sem beinist að fötluðum og þroskaheftum? Eða því sem gekk á á Kópavogshælinu? Klepp?

Hvað finnst ykkur?

sunnudagur, febrúar 04, 2007

Lofaði þessu í gær... 

Svabbi vann yfirburðasigur í gær... 15-14... útrætt...

Góða hugmyndin sem ég fékk um daginn var þannig að ég var eiginlega búinn að ákveða að skella mér á Wolfmother tónleika í Kaupmannahöfn um þarnæstu helgi... en ákvað að breyta þessu aðeins vegna þess að uppselt er á tónleikana og ég fékk þá góða hugmynd og breytti þessu úr tónleikaferð fyrir mig í stutta og skemmtilega helgarferð fyrir okkur kærustuparið. Góð hugmynd ekki satt?

Ég er með allar klær úti til að reyna að redda mér miða á tónleikana en ef ég fæ ekki miða þá er það bara allt í lagi. Ég fer þá bara þegar þeir koma til Íslands... sem verður vonandi mjög fljótlega.

Tónleikar, utanlandsferðir og fleira skemmtilegt að gerast á þessu ári. Það sem af er árinu er ég búinn að plana 3 utanlandsferðir (á fyrstu tveimur ársfjórðungum), fer svo með Karen á Dúndurfréttir og Sinfó, hiklaust svo á Deep Purple og Uriah Heep og aldrei að vita nema maður geri eitthvað annað skemmtilegt líka! Nóg að gera og fíla'ða!

Lag dagsins í dag er Dimension með Wolfmother

fimmtudagur, febrúar 01, 2007

Fékk 

góða hugmynd í gær... ég læt daginn í dag ráða úrslitum um hvernig það fer allt saman... Annars lenti ég í mjög fyndnu atriði á mánudaginn... en það er bara ég :)

Lífið gengur sinn vanagang, brjálað að gera í gær útaf foreldraviðtölunum.

Sat eitt viðtal í gær þar sem einnig var túlkur. Það er ekki frásögu færandi nema þessi túlkur hefur ekki komið í skólann áður (alltaf verið sami túlkur hingað til) og svo í lok viðtalsins segir foreldrið við túlkinn (reyndar á pólsku þannig að við skildum ekkert fyrr en eftirá): Rosalega talar þú lélega pólsku! Túlkurinn brjálaðist eftirá :þ Það var fyndið.

Söngleikurinn í skólanum verður frumsaminn að þessu sinni... í fyrra voru þau með West-side story, þar áður Jesus Christ superstar og mikill metnaður fyrir söngleikjunum. Ég stökk niður til að hlusta á æfingu með kórnum og hljómsveitinni í staðinn fyrir að fá mér hádegismat og þetta var ekkert smá flott! Tónlistin er frumsamin af nemendum skólans og það er ótrúlegur talent í gangi þarna. Ég ætla að fara að leika mér um helgina með blús-projectinu sem ég bjó til og við þurfum að ræða alvarlega þátttöku þeirra í blúshátíðinni um páskana... sejetturinn hvað ég hlakka til!

Annars langar mig til að deila með ykkur bloggi sem ég er farinn að kíkja á daglega... ef þið skrunið neðst þá kemur forsagan að stofnun þessa bloggs svolítið í ljós en mér finnst alveg glæsilegt að lesa þetta blogg vegna þess hve rosalegt vald á íslenskunni þessi einstaklingur hefur... það er ótrúlegt. Smellið hérna til að komast á bloggið.

Lag dagsins er Woman með Wolfmother. Ég las einhvern tímann fljótlega eftir að þeir byrjuðu review frá einhverjum gagnrýnanda um annað hvort plötuna þeirra eða tónlistina yfir höfuð og hann sagði eitthvað á þessa leið: Flott... en 30 árum of seint!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?