<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, desember 29, 2006

Alveg með eindæmum... 

hvað fólk getur verið fáránlegt! Ég sá Kastljósið í gær þar sem að Jón Gunnarsson frá Landsbjörg var að grenja útaf því að einkaaðilar eru farnir að selja flugelda! Mér finnst þetta alveg með eindæmum lýsandi fyrir suma Íslendinga sem eru kannski að grenja yfir því að ríkið einoki t.d. áfengissölu en finnst allt í lagi að Landsbjörg, björgunarsveitirnar og skátarnir einoki þennan markað!

Við vorum einmitt að lýsa stjórnkerfinu og stjórnarfarinu hérna fyrir Mikhá (pólskur vinur Nonna frænda) og hann var eitt spurningarmerki í framan og spurði af hverju við settum ekki bara einræðisherra við völd? Það er greinilega ekki sama hver er með einokunina!!!

Mér finnst þetta bara fáránlegt að rökin fyrir því að einkaaðilar eru 'vondir' er sú að þeir (Landsbjörg o.fl.) hafa verið einir með þennan markað í 40 ár! Þetta var n.b. það sem Jón nefndi fyrst! Svo kom hann líka inná að þetta er eiginlega eina tekjulind þessara félaga til þess að halda úti björgunarstarfsemi.

Ég hef aðeins kíkt inn á Barnaland vegna þess að þar er greinilega umræðan á fullu... og þar er verið að púlla stönt á borð við: Já, keyptu af einkaaðilum... svo koma þeir hlaupandi þegar þú lendir í einhverjum óförum og hjálpa þér, í sjálfboðavinnu...
Hversu barnalegt getur fólk verið?!? Ég ætla allaveganna að vona að ég verði meðvitundalaus ef björgunarsveit finnur mig svo ég geti ekki svarað þeim hvort ég keypti flugeldana hjá þeim eða einkaaðilum... af því að þeir skilja mig bókað eftir ef þeir vita að ég verslaði við Örn Árnason þetta árið!!!

Mér finnst líka bara nauðsynlegt að skoða það að það voru flutt inn 300 tonnum meira af flugeldum þetta ár miðað við í fyrra. Og ef fólk er eitthvað að skíta í sig yfir einkaaðilum þá er mér eiginlega bara slétt sama... Auðvitað eru björgunarsveitirnar nauðsynlegar og þeirra framtak alveg frábært en ég hef undanfarin ár verslað við þau og langar til þess að hafa meiri fjölbreytni auk þess að spara pening. Það getur vel verið að ég sjái eftir því seinna... en ég held að það ætti líka að fá þessa vitlausu ferðamenn sem eru að týnast á fjöllum til þess að a.m.k. halda að þeir þurfi að borga þessa þjónustu svo þeir fari síður á einhvern vergang útá fjöllum bara til þess að týnast!

Heilbrigð samkeppni og afnema alla einokun... og þá meina ég alla!!! það er kannski fljótlegra að flytja til útlanda í staðinn fyrir að þurfa að bíða í einhverjar kynslóðir eftir að einokun íslenska ríkisins leggst af... þetta er það sem við viljum...

Glæsilegt alveg hreint :) 

Öndin hjá mömmu Rokk var alveg hreint frábær. Sósan þvílíkur killer!!!

Ég var greinilega óþreyjufyllstur af öllum varðandi pakkaupprif. Ég er alltaf jafnspenntur að kíkja í pakkana... veit ekki hvað það er... en það er gaman að opna pakka! Ég fékk skyrtu, veski, Little Britain; Season 3, nudd hjá heilsudrekanum frá Karen. Hlynur gaf mér handmálaðan stjörnudisk með gítar málaðan á, málverk með gítar á, nýjasta diskinn með Pearl Jam, Indiana Jones safnið og Robert Plant með Strange sensation-DVD og smá pjéníng sem verður notaður í R&R eftir áramótin. Svo fengum við Karen sængurver og egg-timer svo eitthvað sé nefnt. Me so happy! Frábærar gjafir í alla staði.

Jólin eru búin að vera geðveikt fín. Fórum í heingikjöt til Betu tengdó á jóladag og það var alveg æðislega gott. Ég man eftir því í fyrra að ég hafði ekki borðað hangikjöt neitt fyrir jólin og ég er ekki frá því að hangikjötið hafi verið miklu betra fyrir vikið á jóladag. Á öðrum renndi ég svo eftir Hlyni og við fórum svo upp á Skaga í mat til múttu. Það var líka alveg frábært og svo á þriðjudaginn fórum við feðgarnir rétt úr náttfötunum um 6 leytið til þess að renna eftir fisk af því að, aldrei þessu vant, langaði mig alveg geðveikt í fisk! Held að kjötið yfir stórhátíðina hafi bara gert útaf við mig...

Karen fór í vinnuna í gær og í fyrradag og við feðgarnir erum búnir að vera eins og rottur hérna heima... sofa til 10 á morgnanna og gera svo ekki rassgat allan daginn! Það er gaman.

Ég fékk fyrstu einkunnina fyrir jól og þetta er með lægstu einkunnum sem ég hef fengið á ferlinum en metnaðurinn stoppaði í 5 hjá mér þannig að ég er hæstánægður með þessa einkunn :)

Nú er ég kominn með killer-hálsríg útaf púsluspilun en við eigum ekki nema svona 50 stykki eftir af 2000... sem er ekki lélegt á þremur dögum. Svo verður tekin pása í því!!! Ég ætla að skella mér í sund á morgun... og hafa fisk aftur í kvöldmat... 'cos I wanna!

Gleðilega rest og farið varlega í sprengjurnar!!!

Lag dagsins er Litla Beirút með hljómsveitinni Reynigrund 26

sunnudagur, desember 24, 2006

Árlegur jólapistill! 

Ég tók þá ákvörðun í fyrra að hætta að senda jólakort. Ég ákvað að gefa pening til hjálparstarfs í staðinn og mér finnst það vera mjög verðlaunandi. Ég nenni ekki að festast í einhverjum vítahring jólakorta þannig að ég ætla héreftir að henda inn árlegum jólapistli á aðfangadag þar sem ég dreg saman helstu viðburði líðandi árs.

Það hefur mikið á daga mína drifið undanfarið ár. Það er helst frá því að segja þegar ég eyddi jólunum seinustu og hálfum janúar í ritgerðasmíð. Ritgerðin fæddist á tilætluðum tíma og ég náði BA áfanganum í uppeldis- og menntunarfræðinni. Það var erfiður og skemmtilegur tími á víxl og maður sér á bæði raunatímum og góðum tímum hversu gott bakland maður hefur í fjölskyldu og vinum.

Í kringum útskriftina fluttum við Karen og Hlynur yfir Eggertsgötuna úr númer 16 í 22. Það var löngu tímabær þörf af því að það er erfitt fyrir tvær og jafnvel þrjár prinsessur (eins og í okkar tilfelli) að fóta sig almennilega í 36 fermetrum. Við erum aðeins ánægðari hér en þar.

Hlynur varð 7 ára á árinu og er búinn að stækka um rúmlega 5 sentimetra á árinu auk þess að tapa nokkrum tönnum (ekki í slagsmálum þó) og fá nokkrar 'fullorðins' í staðinn.

Mér fannst alveg ómissandi að heyra í Pétri, Matta og Einari á fimmtudögum á árinu sem er að líða auk þess að Dúndurfréttatónleikarnir sem ég skellti mér á eru meðal 'higlights' á þessu ári.

Sjálfur var ég að spila á föstudögum á Café Victor ásamt Villa og Tobba í maí, júní og svo með Arnari í Júlí. Það var gaman.

Mestu breytingarnar byrjuðu svo í sumar þegar ég hætti að vinna í álverinu og fór að vinna fyrir Félagsvísindastofnun. Þá losnaði svolítið um dagskránna og Hlynur var næstum allt sumarið hjá okkur.

Í ágúst fékk ég svo vinnu sem námsráðgjafi í Hagaskóla Íslands og nágrennis og hélt jafnframt áfram með M.Ed. námið mitt í Háskólanum. Það er búinn að vera svolítið brjálaður tími vegna þess að það fylgir því náttúrulega mikið álag að koma inn í nýtt starf auk þess að álagið í skólanum hefur verið mikið. Ég hef átt mjög farsæla lendingu þar og það er mér mikils virði að hafa yfirmenn sem hrósa manni þegar maður stendur sig vel og það hefur stjórn skólans svo sannarlega gert... auk þess að ég hef náttúrulega margsannað mig ;)
Nemendurnir eru hreint frábærir og hafa tekið mér sem hálfgerðum stóra bróður þó svo að ég líti á þau sem börnin mín :D Ég kann mjög vel við mig í Hagaskóla og það skemmir ekki fyrir að vera að vinna með frábærum kennurum og öðru starfsfólki. Ég hef verið að spila með krökkunum í hádeginu á föstudögum en það hefur minnkað eftir því sem líður á veturinn en það kannski skánar eftir áramót. Þetta er í raun þau fáu skipti sem ég hef getað gripið í gítar.

Ég eignaðist tvo gítara í ár... 12 strengja kassa og draumagítarinn Fender Telecaster 60 ára afmælisútgáfu. Þá er stefnan að reyna að spila eitthvað á þá á næsta ári...

Að öðru leyti þá hefur þetta verið skemmtilegt og viðburðaríkt ár. Ég er ástfanginn upp fyrir haus, á frábæra kærustu og yndislega fjölskyldu og er bara virkilega sáttur við mitt hlutskipti í lífinu. Framundan verað vonandi skemmtilegir og ögrandi tímar svo maður haldi nú áfram að þroskast og vaxa.

Að lokum vil ég þakka lesendum mínum fyrir komuna og kvitt og óska ykkur jafnframt gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Ég vona innilega að þið hafið það sem allra best á nýju ári og í framtíðinni.
Með þökk og bestu kveðju,
Óli Örn Atlason

laugardagur, desember 23, 2006

Einn dagur í viðbót! 

og þá eru komin jól!!! Þetta er búið að vera ótrúlega fljótt að líða núna. Hlynur fór frá okkur í morgun og við sjáum hann ekki fyrr en á öðrum í jólum. Hann er búinn að vera algjör dúlla hérna hjá okkur síðan á þriðjudaginn, ótrúlega hjálpsamur, kurteis, þolinmóður og stilltur.
Hann var ótrúlega heppinn og fékk Playmó-dót í skóinn tvo daga í röð. Jóli hefur greinilega viljað að hann léki sér heldur en að fá skemmdar tennur :þ Hann var svo ótrúlega ánægður að hann sagði eitthvað á þessa leið... Ég veit bara ekki hvað ég hef gert til að fá svona gott í skóinn! Hann kveikti öll ljós og vakti okkur með þvílíkum látum... svo mikil var kætin. Svo í morgun var hann að setja pinkulítil hjól undir línuskautana sem playmo-strákurinn átti og missti annað á gólfið. Ég spurði hvort að ég ætti að kveikja ljósin fyrir hann en í þeim sömu töluðu orðum fann hann hjólið og sagði svo með hneykslunartóni: „Pabbi!!! Ég sé í myrkri!“ Flottur gaur.

Ég er orðinn pinku spenntur og það verður næs að sofa út á morgun og fara svo í dýrindismat á Jörundarholtinu og gefa og þiggja gjafir.

Við kíktum í árlega Þorláksmessujólaboðið til Höllu og Palla. Glæsilegt í alla staði matarlega og fjölskyldulega séð. Þarna er að skapast frábær hefð sem maður á eftir að ganga að næstu árin. Það er svo gaman að hitta familíuna þó ekki sé oftar en einu sinni á ári. Ég sakna jólaboðanna sem voru alltaf hjá Valla og Dóru á öðrum í jólum þegar maður hitti alla mömmu megin. Það var gaman að nota hátíðirnar sem eru hvað mest... hátíðlegar... í að hitta fjölskyldu sína. Jólin eru svo sannarlega family-time og það er nokkuð ljóst að þetta er eitthvað sem maður vill seint missa og finnur betur eftir því sem líður hversu mikilvægt það er.

Annars gott... tók smá rúnt í dag í Krínglið og Smáralindið, smá í IKEA og náði meira að segja að þvo bílinn minn... að utan n.b. Og þetta allt saman fyrir klukkan 18:00 í dag þannig að ég náði snilldarþættinum á RÚV um kraftaverkafólkið... A MUST SEE.

Hafið það gott í kvöld svo þið verðið hress á morgun í matnum... ekki rjúpur að þessu sinni... en frænka rjúpunnar verður í staðinn...
Pistillinn á morgun.
Lag dagsins er Heaven on their minds úr Jesus Christ Superstar (sem er frábært að horfa á yfir jólin...)

föstudagur, desember 22, 2006

Enn bætast gjafir í hópinn... 

ég á kannski eftir að redda einni í viðbót... ég heyri í Atla bró í dag hvort að það þurfi. Annars get ég bara farið og lagst í hýði. Það er til nóg af kóki og slykkeríi, skeinir og sígó... þannig að ég fer ekkert út fyrr en 3. janúar! :þ
Segi svona... en þetta er allt að detta og nú getur mann farið að hlakka til jólanna. Ég hef aldrei gert þetta svona áður og verið búinn svona snemma... aldrei að vita nema að maður geri það aftur.
Lag dagsins er Here comes the sun með Bjöllunum.

fimmtudagur, desember 21, 2006

Ein eftir... 

ekki er það nú mikið... á bara eftir að versla eina gjöf og pakk'enni. Þetta er allt að gerast hjá mér! Við feðgarnir ætlum svo að ráðast í það að skreyta jólatréð á eftir og klára þrifin og þá er hægt að halda áfram að gera ekki neitt!
Heyri í ykkur á morgun!
Lag dagsins er It's beginning to look a lot like christmas

Klikkaði... 

en það skeikar ekki nema nokkrum mínútum. Þannig að tveir í 'dag' í staðin. Fínt gott og brjálað... það er svona cirka hvernig statusinn er í dag. Við feðgarnir fórum í smá rúnt í dag. Byrjuðum á því að fara í hátíðarmat í Hagaskóla og fengum dýrindis heingikjöt og stúf, bæði heitt og kalt heingi auk lambs. Þörfum allra var fyllt þarna... grammetisæturnar fengu rauðkál. „Pabbi... koddu aðeins... maðurinn þarna í prjónapeysunni... hann er alveg eins og Jón Gnarr!“ sagði Hlynur þegar hann dró mig út af kennarastofunni og inn á skólastjóraskrifstofuna. „Nú? Það er af því að þetta er hann :þ“ sagði ég. Jón Gnarr var leynigestur og las upp úr bók sinni Indjánanum fyrir okkur. Þessi bók lofar góðu og það var mjög skemmtilegt að fá hann sjálfan til þess að lesa upp úr bókinni sinni.

Svo fórum við í Kringluna, Skeifuna, Smáralindina og ég veit ekki hvað... maður verður bara léttgeggjaður á þessu bulli... ég er farinn að þróa með mér svona road-rage-on-foot dæmi!!! En það styttist í lok jólagjafaverslunar. Ég á MJÖG lítið eftir.

Settum upp jólatréð áðan og það verður gaman að henda kúlum og seríum á það á morgun. Það verður samt ennþá skemmtilegra á næsta ári að vera með GERVIJÓLATRÉ!!!

Útrætt?
Hvort vilt þú ekta eða gervi jólatré?

þriðjudagur, desember 19, 2006

Jólagjöfin í ár... 

er tvímælalaust í boði lögreglunnar... var stoppaður í dag fyrir of hraðann... en fékk jólagjöfina snemma frá þeim... Heppinn!

mánudagur, desember 18, 2006

Að ná andanum... 

Jólafríið er svo nálægt að ég finn lyktina af því!!! Mér finnst fyrst nú að ég sé að ná andanum í vetur. Ég er búinn að vera að 'læra' á starfið mitt og er kominn vel inn í það. Ég er einnig búinn að vera að læra í vetur og ég er líka búinn að sjá það að það er algjört bull að vera í 11 einingum í MA námi með 100%+ vinnu... Tók meira að segja eftir því í gær að ég var búinn að losna við fjörkippinn sem ég var með undir hægra auganu í 4 vikur! Auk þess er ég sannfærður um að blóðþrýstingurinn sé búinn að jafna sig í bili... svona rétt fyrir allt salta og reykta kjötið sem er að fara í hönd :) Ég ætla að gera ekki neitt eftir miðvikudaginn... það lítur meira að segja út fyrir það að ég nái að versla jólagjafirnar fyrir Þorláksmessu... sem er óvanalegt.

Ég er reyndar að fara að spila í kvöld í stór-sörf-bandinu 'Kennarasleikjurnar'. Það er klikkað gaman að setja jólalög í surf-útgáfu... og næstum því eins skemmtilegt að setja þau í diskó-útgáfu... en svona eru jóli...

Ég stefni að því að blogga á hverjum degi fram að jólum.

Ég ætla líka að sleppa því að senda jólakort í ár og setja frekar pening í hjálparstarf... mér finnst það meira rewarding... auk þess að ég ætla að setja inn á bloggið mitt jóla-árs-annál sem þið getið notið betur og prentað út ef þið eruð ósátt með að fá ekki jólakort frá mér.

Gleðileg komandi jól... Lag dagsins er Jólasveinafylkingin, Hurðaskellir og Stúfur! Alveg langbesta jólalagið...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?